Blikar hungraðir í enn meira (myndskeið)

Það voru íslensk dægurlög sem hljómuðu í Blikagrænni rútu á þjóðvegum Bosníu á leið frá bænum Zenica og upp í fjöllin sunnan Sarajevó í gærkvöldi. Þar um borð var ástæða til þess að fagna, enda Breiðablik búið að tryggja sér sæti í 32ja liða úrslitum Meistaradeildar kvenna í knattspyrnu. Liðið hafði staðist lokaprófið í undanriðlinum og unnið heimalið Sarajevó 3:1.

Sigur í öllum þremur leikjunum í Bosníu, markatalan 18:2 og farseðillinn í næstu umferð keppninnar. Allt samkvæmt þeirri áætlun sem lagt var upp með fyrir ferðina. En það sem var svo einkennandi þegar horft var yfir Blikaliðið eftir sigurinn í gær er að það vilja allir enn lengra. Það er það sem einkennir gott íþróttalið; það er enginn saddur þegar markmiðum er náð. Hungrið í meira er alltaf til staðar og það á svo sannarlega við um Blikaliðið.

Mótherjinn í gær var sá sterkasti af þeim þremur sem Blikar mættu í Bosníu og í raun í fyrsta sinn sem liðið fékk einhverja mótspyrnu að ráði. En það var samt svo til enginn sóknarþungi sem Blikarnir þurftu að glíma við og eftir að Berglind Björg Þorvaldsdóttir skoraði fyrsta markið var ljóst að feilspor yrði ekki stigið í Bosníu. Heiðdís Lillýjardóttir átti heiðurinn af öðru markinu þegar markvörður Sarajevó missti boltann með tilþrifum í netið, áður en Berglind skoraði þriðja markið eftir hlé.

Sárabótamark heimaliðsins undir lokin skipti engu máli, en það var ljóst á öllum vígstöðum að leikmenn Sarajevó voru skrefinu á eftir Íslendingunum. Alveg sama hvort horft er til styrks, hraða, tækni, úthalds eða áræðni og svo mætti lengi telja. Það var aldrei hætta á því að Blikar myndu snúa sárir heim úr þessari Bosníuferð.

Nánar er fjallað um leikinn á íþróttasíðum Morgunblaðsins sem kom út í morgun. Í myndskeiðinu hér að ofan má svo sjá mörkin úr leiknum.

Leikmenn, þjálfarar og fylgdarlið Breiðabliks í Bosníu í gær eftir …
Leikmenn, þjálfarar og fylgdarlið Breiðabliks í Bosníu í gær eftir að farseðillinn í 32ja liða úrslit var í höfn. mbl.is/Andri Yrkill
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »