Dramatík þegar Vestri hirti toppsætið

Bjarni Jóhannsson er þjálfari Vestra.
Bjarni Jóhannsson er þjálfari Vestra. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Eftir að hafa setið í toppsæti 2. deildar karla í knattspyrnu síðan í 13. umferð um miðjan júlí missti Leiknir frá Fáskrúðsfirði forskot sitt í dag þegar 18. umferðin hófst með fimm leikjum.

Leiknir heimsótti Selfoss þar sem heimamenn fóru með 2:0 sigur af hólmi. Kenan Turudija og Þór Llorens Þórðarson skoruðu mörk Selfoss sem er í þriðja sætinu með 32 stig, nú aðeins tveimur frá Leikni sem er í öðru sæti.

Vestri skaust hins vegar á toppinn með dramatískum sigri á Víði, 2:1, þar sem Pétur Bjarnason skoraði sigurmarkið á fjórðu mínútu uppbótartíma. Vestri er með 36 stig á toppnum en Víðir er í fjórða sæti með 29 stig.

Dramatíkin var ekki minni á Húsavík þar sem Völsungur vann 1:0 sigur á KFG, en Sverrir Páll Hjaltested skoraði sigurmarkið á lokamínútunni eftir að Völsungur hafði áður misst mann af velli. Húsvíkingar eru í 9. sætinu með 24 stig en KFG er í fallsæti með 15 stig.

Kári gerði góða ferð norður og vann nokkuð óvæntan 3:1-sigur á Dalvík/Reyni þar sem Andri Júlíusson skoraði öll þrjú mörk liðsins, þar af tvö úr vítaspyrnum. Sveinn Margeir Hauksson lagaði stöðuna fyrir heimamenn úr vítaspyrnu. Kári er í 10. sæti með 21 stig en Dalvík/Reynir er í fimmta sæti með 27 stig.

Þá gerðu Fjarðabyggð og ÍR 3:3 jafntefli í Fjarðabyggðarhöllinni. Viktor Örn Guðmundsson kom ÍR yfir og Fjarðabyggð missti Guðjón Mána Magnússon af velli með rautt spjald. Manni færri skoruðu Eysteinn Þorri Björgvinsson, Gonzalo Bernaldo og Jose Vidal fyrir Fjarðabyggð en Ari Viðarsson og Ágúst Freyr Hallsson bættu við mörkum fyrir ÍR sem er í 7. sæti með 25 stig, einu sæti og einu stigi ofar en Fjarðabyggð.

mbl.is