Helgi hættir með Fylki

Helgi Sigurðsson.
Helgi Sigurðsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Helgi Sigurðsson mun láta af störfum sem þjálfari karlaliðs Fylkis í knattspyrnu eftir leiktíðina en þetta kemur fram í tilkynningu frá Fylkismönnum.

Í tilkynningunni kemur fram:

„Knattspyrnudeild Fylkis og Helgi Sigurðsson hafa komist að þeirri sameiginlegu ákvörðun að Helgi láti af störfum sem aðalþjálfari karlaliðs Fylkis eftir yfirstandandi keppnistímabil. Ákvörðunin er tekin í bróðerni og sátt beggja aðila. Helgi tók við Fylkisliðinu haustið 2016 þegar félagið var fallið úr Pepsi-deildinni eftir 16 ára samfellda veru í efstu deild á Íslandi.

Frá þeim tíma hefur Helgi sinnt starfi sínu af þeim metnaði og þeirri ástríðu sem einkennir hann sem íþróttamann og einstakling. Fylkir hefur notið góðs af samstarfinu við Helga undanfarin þrjú ár og vill á þessum tímamótum þakka honum fyrir hans framlag til félagsins sem hann gekk í á krefjandi tímum.“

Þakkar Helga fyrir frábært framlag til félagsins

„Fyrir hönd Fylkis langar mig að þakka Helga fyrir frábært framlag hans til félagsins. Samstarfið við Helga hefur gengið vel og liðið hefur verið í góðri framþróun undir hans stjórn. Helgi hefur myndað frábært samband við stjórn, leikmenn og stuðningsmenn félagsins. Eftir gott samtal og í góðri samvinnu voru báðir aðilar sammála um að við lok yfirstandandi tímabils væri rétti tímapunkturinn fyrir breytingar. Saman stefnum við á að klára tímabilið af krafti og treystum á að stuðningsmenn Fylkis haldi áfram að fjölmenna á leiki liðsins og styðja við bakið á strákunum okkar allt til enda. Við viljum þakka Helga fyrir ánægjulegt samstarf á síðastliðnum þremur árum og óskum honum velgengni í þeim verkefnum sem hann tekst á við í framtíðinni,“ segir Hrafnkell Helgi Helgason, formaður meistaraflokksráðs karla hjá Fylki.

Þetta hafa verið góð ár

„Ég vil byrja á að þakka Fylki fyrir traustið og tækifærið sem mér var gefið árið 2016. Við höfum náð flestum okkar markmiðum. Þetta hafa verið góð ár, ég hef kynnst mörgu góðu fólki í kringum félagið. Það hefur verið frábært að vinna með þjálfarateyminu en allir sem hafa komið að verkefninu hafa lagt mikið á sig. Ég vil koma góðum kveðjum á stuðningsmenn Fylkis sem tóku vel á móti mér og hafa reynst mér vel. Ég vona að Fylkisfólk mæti á þá leiki sem eftir eru og hjálpi okkur að sækja þau stig sem eftir eru í pottinum,“ segir Helgi Sigurðsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert