Ég elska að skora mörk

Gary Martin í baráttu við Pétur Viðarsson í Kaplakrika í …
Gary Martin í baráttu við Pétur Viðarsson í Kaplakrika í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Það skyldi þó ekki fara svo að Gary Martin, framherji ÍBV, endaði sem markakóngur Pepsi Max-deildarinnar í knattspyrnu í ár en Englendingurinn var á skotskónum í Kaplakrika í kvöld þegar Eyjamenn töpuðu fyrir FH-ingum 6:4 í ótrúlegum leik í Kaplakrika.

Gary skoraði þrennu og hefur þar með skorað 11 mörk í deildinni, tvö fyrir Val og níu fyrir ÍBV, jafnmörg og Stjörnumaðurinn Hilmar Árni Halldórsson en Daninn Thomas Mikkelsen í liði Breiðabliks er markahæstur með 12 mörk.

„Þetta er furðulegasti leikurinn sem ég hef spilað á ferlinum. Ég sagði við Steven Lennon að þetta gæti orðið opinn leikur og hann varð það heldur betur,“ sagði Gary Martin í samtali við mbl.is eftir leikinn.

„Í stöðunni 6:1 hugsaði ég að gæti ekki farið að tapa með þessum mun. Ég er markaskorari og ég elska að skora mörk. Við sýndum góðan karakter og náðum heldur betur að laga stöðuna. Ég held að ég hafi síðast skorað þrennu hér á Íslandi árið 2014,“ sagði Gary.

Er hundrað prósent öruggt að þú spilar með ÍBV í Innkasso-deildinni á næsta tímabili?

„Ég er með samning á næsta ári við ÍBV. Ef við hefðum tapað 6:1 fði ég kannski hugsað mig um. Ég veit að ég get spilað í Pepsi-deildinni og verið þar frábær framherji en eins og ég horfi á þetta mun ég spila í Inkasso-deildinni. Ég samþykkti það nema að ÍBV vilji láta mig fara af einhverjum ástæðum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert