Flutum eiginlega sofandi að feigðarósi

Eyjólfur Héðinsson á fullri ferð í leik gegn FH.
Eyjólfur Héðinsson á fullri ferð í leik gegn FH. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Stjörnumenn fóru ekki brosandi af velli þrátt fyrir 3:2 sigur á Eyjamönnum í lokaumferð úrvalsdeildarinnar í fótbolta í Garðabæ í gær. Þeir vissu sem var að Evrópusætið var runnið þeim úr greipum þar sem FH hafði sigrað Grindavík.

Eyjólfur Héðinsson, fyrirliði Stjörnunnar, sagði við mbl.is að leikmenn liðsins hefðu vitað hver staðan var áður en leiknum lauk og því hefði verið lítið um fögnuð.

„Já, við vissum þegar leið á leikinn að það væri lítið til að spila um. Við fréttum hvernig staðan var í Kaplakrika en það var þó jákvætt að vinna leikinn og enda ekki tímabilið á slæmum nótum. Við unnum þó síðustu tvo leikina og það er gott að taka eitthvað jákvætt með sér.

En þetta var vonbrigðatímabil og við þurfum að fara í smá naflaskoðun, ekki bara við leikmennirnir heldur félagið upp úr og niður úr. Við erum kannski búnir að sofa aðeins á verðinum eftir bikarmeistaratitilinn í fyrra. Það hefur verið smá værukærð í kjölfarið á honum og við flutum eiginlega sofandi að feigðarósi, finnst mér. Ég hefði viljað að við spýttum aðeins meira í lófana. Við vorum í rauninni sjálfum okkur verstir.

En þetta er ekkert alslæmt, enginn botn í sjálfu sér. Við erum þó allavega í fjórða sæti, en samt sem áður eru þetta vonbrigði. Við erum óánægðir með tímabilið og það er til merkis um það að við erum topplið sem hefur verið í efstu þremur til fjórum sætunum undanfarin ár, en viljum meira. Það segir sitt að við erum ósáttir,“ sagði Eyjólfur sem lauk í gær sínu fjórða tímabili með Stjörnunni eftir að hann sneri heim að loknum tíu árum í atvinnumennsku.

Hann reiknar með að spila áfram með Garðabæjarliðinu á næsta tímabili.

„Ég er með samning eitt ár í viðbót og held ótrauður áfram. Hann er reyndar uppsegjanlegur af beggja hálfu en ég reikna með að vera hérna áfram. Ekki nema það komi eitthvað annað frá Stjörnunni, og þá gerist það bara.

En mér líður vel og mig langar til að spila lengur, mig langar til að fara skrefinu lengra og verða Íslandsmeistari. Við erum með lið til þess þó að við séum langt á eftir KR núna þegar við lítum á töfluna. Þeir eru klárlega með langbesta liðið núna en við teljum okkur alveg þess verða að keppa um titilinn. Nú þarf allt félagið að gefa í, stjórnin, þjálfarar, leikmenn og stuðningsmenn, og við komum til baka sterkari að ári. Þetta fer allt upp á við héðan í frá," sagði Eyjólfur Héðinsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert