Sýndi þessu fullan skilning

Emil Hallfreðsson.
Emil Hallfreðsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Emil Hallfreðsson datt út úr íslenska landsliðshópnum fyrir leikina gegn Tyrklandi og Moldóvu í undankeppni EM eins og fram kom á mbl.is fyrr í dag þegar Erik Hamrén landsliðsþjálfari opinberaði landsliðshópinn.

„Ég bjóst alveg við þessu. Erik hringdi í mig og tjáði mér þetta og ég sýndi þessu fullan skilning. Ég sagði bara við hann að ég hefði verið klár ef hann hefði kallað í mig. Ég skil vel að hann velji aðra menn í staðinn þar sem ég er enn án félags. Vonandi verð ég búinn að finna mér lið fyrir næsta verkefni og geti þá orðið að liði,“ sagði Emil við mbl.is en hann hefur verið án félags frá því hann yfirgaf ítalska Udinese í sumar.

„Þetta er auðvitað ekki óskastaða sem ég er í og mér datt ekki í hug að þessi staða kæmi upp. Ég trúi því samt ennþá að eitthvað gott gerist en ég verð bara að vera þolinmóður,“ sagði Emil.

Emil, sem er 35 ára gamall, kom inná sem varamaður í seinni hálfleik í 2:0 sigri Íslands gegn Andorra í síðasta mánuði og lék þá sinn 71. landsleik. Hann lék fyrsta landsleik gegn Ítölum árið 2005, vináttuleik sem lyktaði með markalausu jafntefli.

mbl.is