Frá Kaupmannahöfn í Fossvoginn

Arnar Gunnlaugsson þjálfari Víkings hefur verið duglegur að fá til …
Arnar Gunnlaugsson þjálfari Víkings hefur verið duglegur að fá til sín unga leikmenn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Enn einn ungi leikmaðurinn er á leið til Víkings í Reykjavík frá erlendu félagi en samkvæmt fotbolti.net kemur Kristall Máni Ingason til Fossvogsliðsins í láni frá FC Köbenhavn í Danmörku.

Kristall Máni er 18 ára gamall sóknarmaður sem lék með Fjölni í yngri flokkunum og var kominn fimmtán ára inn í hóp meistaraflokks félagsins. Hann hefur verið í röðum danska félagsins í hálft annað ár og hefur spilað 30 leiki með yngri landsliðum Íslands.

Víkingar fengu Atla Barkarson frá Fredrikstad í Noregi í vetur og síðustu misserin hafa Ágúst Eðvald Hlynsson, Júlíus Magnússon, Atli Hrafn Andrason og Óttar Magnús Karlsson komið til félagsins frá erlendum félagsliðum, sem og Guðmundur Andri Tryggvason sem var í láni frá Start á síðasta tímabili en er farinn aftur til Noregs.

mbl.is