Svartur blettur á minni ferilskrá

Rúnar Kristinsson.
Rúnar Kristinsson. mbl.is/Kristinn Magnússon

Rún­ar Krist­ins­son, þjálf­ari Íslands­meist­ara KR í knatt­spyrnu, segir töpin gegn HJK í Finnlandi og Molde í Noregi vera svarta bletti á annars glæstum ferli sem þjálfari.

Rúnar hefur gert KR að Íslandsmeisturum þrisvar og hefur liðið oft tekið þátt í Evrópukeppni undir hans stjórn. Vesturbæingar steinlágu í Helsinki í Finnlandi árið 2012 þegar þeir töpuðu 7:0 gegn HJK og þá fékk liðið aðra útreið í fyrra í Noregi, tapaði 7:1 gegn Molde.

„Þetta er svartur blettur á minni ferilskrá, þetta er eitthvað sem ég þarf að læra af,“ sagði Rúnar í samtali við Hjörvar Hafliðason í hlaðvarpsþætt­in­um Dr. Foot­ball. „Gegn Molde eigum við fyrstu tvö dauðafærin í leiknum. Sama gegn HJK, eftir að þeir komast í 1:0 eigum við tvö algjör dauðafæri sem ég hefði skorað úr í gær!“

„En um leið og hinir komast í 2:0 þá liðaðist bara allt í sundur. Í Helsinki lak allt inn, Molde skoraði fjögur af sjö mörkum úr föstum leikatriðum og við höfðum verið góðir að verjast þeim allt sumarið.“

Rúnar segir KR-liðið þurfa að læra af þessu og kannski spila aðeins meira í vörn í erfiðum Evrópuverkefnum. „Við þurfum að læra af þessu og vera kannski miklu, miklu varnarsinnaðri en við höfum verið. En við megum ekki bara fara með liðið aftur fyrir miðju og hanga þar í 90 mínútur.“

„Við þurfum að reyna komast fram völlinn stundum, maður verður svo þreyttur á að bara verjast og verjast. Láttu mig þekkja það, ég á dálítið marga landsleiki bara í því hlutverki,“ bætti Rúnar við kíminn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert