KR-ingar niðurlægðir í Molde

Leke James skorar þriðja mark Molde, Arnór Sveinn Aðalsteinsson, Skúli …
Leke James skorar þriðja mark Molde, Arnór Sveinn Aðalsteinsson, Skúli Jón Friðgeirsson og Beitir Ólafsson ná ekki að stöðva hann. Ljósmynd/NTB

KR-ingar voru niðurlægðir þegar liðið heimsótti norska úrvalsdeildarliðið Molde í fyrri leik liðanna í 1. umferð undankeppni Evrópudeildarinnar í knattspyrnu á Aker-vellinum í Noregi í dag. Leiknum lauk með 7:1-sigri norska liðsins en það var Tobias Thomsen sem skoraði eina mark Vesturbæinga í leiknum á 70. mínútu í stöðunni 6:0.

Vesturbæingar byrjuðu leikinn af krafti og Óskar Örn Hauksson átti gott skot að marki strax á fyrstu mínútu sem Alexandro Craninx í marki Molde varði út í teiginn. Frákastið hrökk til Tobias Thomsen sem skaut beint á Craninx í markinu úr þröngu færi og þaðan fór boltinn aftur fyrir endamörk. Norðmennirnir voru fljótir að refsa og á 6. mínútu kom Leke James Molde yfir af stuttu færi úr teignum eftir að Norðmennirnir höfðu sundurspilað vörn Vesturbæinga. Eftir þetta tóku Norðmennirnir öll völd á vellinum og Fredruj Aursnes tvöfaldaði forystu Molde á 28. mínútu eftir hornspyrnu. Etzaz Hussein átti skalla í þverslá, þaðan barst boltinn á Aursnes, sem var einn fyrir opnu marki og hann stýrði knettinum í netið úr markteignum og staðan orðin 2:0.

Leke James bærri við þriðja marki Molde, þremur mínútum síðar, aftur eftir hornspyrnu en Vegard Forren átti skalla á nærstöng. Hann flikkaði boltanum á fjærstöngina þar sem James var einn og óvaldður og hann stýrði boltanum yfir marklínuna af stuttu færi. James fullkomnaði svo þrennuna níu mínútum síðar eftir frábært samspil leikmanna Molde sem endaði með því að Eirik Hestad átti frábæra fyrirgjöf frá hægri sem Beitir Ólafsson í marki KR missti af. Boltinn barst til James sem stýrði honum í tómpt markið með hnénu og staðan því 4:0 í hálfleik á Molde-vellinum í Noregi.

Norðmennirnir byrjuðu seinni hálfleikinn af miklum krafti og strax á 57. Mínútu átti Etzaz Hussein hörkuskot í þveslá. Frákastið datt fyrir Ohi Omoijuanfo sem átti skot í stöng áður en Gunnar Þór Gunnarsson hreinsaði í innkast. Á 63. mínútu skoraði Vegard Forren fimmta mark Molde þegar Ohi skallaði boltann til hans á nærstöngina eftir hornspyrnu og Forren stýrði boltanum örugglega í netið. Etzaz Hussein bætti sjötta markinu við, þremur mínútum síðar, eftir laglegan undirbúning Eirik Hestad en Hussein skoraði af stuttu færi úr teignum eftir fyrirgjöf Hestad. Tobias Thomsen klóraði í bakkann fyrir KR-inga, fjórum mínútum síðar þegar Kennie Chopart átti flotta fyrirgjöf frá hægri og Thomsen stangaði knöttinn í netið úr teignum og staðan orðin 6:1.

Leikurinn fjaraði hægt og rólega út eftir þetta. KR-ingar reyndu hvað þeir gátu að bæta við mörkum á meðan leikmenn Molde voru duglegir að halda boltanum sín á milli og KR-ingum gekk erfiðlega að klukka Norðmennina. KR-ingar björguðu á marklínu í uppbótartíma eftir sjöundu hornspyrnu Molde-manna og það var svo Ohi Omoijuanfo sem skoraði sjöunda mark Molde í uppbótartíma þegar hann slapp einn í gegn og kláraði vel fram hjá Beiti. Síðari leikur liðanna fer fram eftir viku á Meistaravöllum í Vesturbænum og verður að teljast útilokað að KR sé á leið áfram í aðra umferð undankeppninnar.

Molde 7:1 KR opna loka
90. mín. Ohi Omoijuanfo (Molde) skorar 7:1 - Ohi kórónar niðurlægingu KR með sjöunda markinu. Sleppur einn í gegn og þrumar boltanum framhjá Beiti.
mbl.is