Kemst Ísland á fjórða Evrópumótið í röð?

Íslenska liðið æfði á Laugardalsvelli í gær.
Íslenska liðið æfði á Laugardalsvelli í gær. mbl.is/Árni Sæberg

Íslenska kvennalandsliðið í knattspyrnu leikur sinn fyrsta leik í undankeppni EM í tæpt ár er Lettland kemur í heimsókn á Laugardalsvöllinn næstkomandi fimmtudag. Átti Ísland að leika fjóra leiki í sumar en var þeim frestað vegna kórónuveirunnar. 

Ísland lék þrjá leiki í æfingamótinu Pinatar-bikarnum í mars, en síðasti keppnisleikur var 8. október á útivelli, einmitt gegn Lettlandi. Ísland vann sannfærandi 6:0-útisigur í Lettlandi og er töluvert sigurstranglegra liðið á heimavelli gegn sömu þjóð. 

Ísland er með fullt hús stiga eftir þrjá leiki, eins og Svíþjóð, og tróna Norðurlandaþjóðirnar á toppnum með níu stig, fimm stigum á undan Ungverjalandi og Slóvakíu sem hafa leikið leik meira.

Sara Björk Gunnarsdóttir varð Evrópumeistari á dögunum. Hún er að …
Sara Björk Gunnarsdóttir varð Evrópumeistari á dögunum. Hún er að sjálfsögðu í hópnum, eins og Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir. mbl.is/Árni Sæberg

Á meðal markaskorara í Lettlandi voru þær Fanndís Friðriksdóttir og Margrét Lára Viðarsdóttir. Verða þær ekki með að þessu sinni þar sem Fanndís er ófrísk og Margrét Lára lagði skóna á hilluna skömmu eftir leikinn.  

Nokkrir leikmenn lettneska liðsins leika hér á landi en þær Eliza Spruntule, Olga Sevcova og Kalkina Miksone voru allar í byrjunarliðinu gegn Íslandi í október. Leika þær allar með ÍBV og eru á meðal bestu leikmanna liðsins. 

Liðið sem vinnur riðilinn fer beint á EM og þær þrjár þjóðir sem enda í öðru sæti og eru með bestan árangur gegn liðunum í fyrsta, þriðja, fjórða og fimmta sæti í riðlinum. Það gæti því dugað Íslandi að enda í öðru sæti til að komast á lokamótið í Englandi 2022, en mótið átti upprunalega að fara fram 2021. 

Á þriðjudaginn eftir viku bíður íslenska liðsins erfiðara verkefni en þá kemur Svíþjóð í heimsókn í toppslag. Er Svíþjóð með markatöluna 16:1 eftir leikina þrjá og Ísland 11:1. Endaði Svíþjóð í þriðja sæti á HM í Frakklandi á síðasta ári og er með gríðarlega sterkt lið. 

Sveindís Jane Jónsdóttir (lengst til hægri) gæti leikið sinn fyrsta …
Sveindís Jane Jónsdóttir (lengst til hægri) gæti leikið sinn fyrsta landsleik. mbl.is/Árni Sæberg

Eru leikirnir við Lettland og Svíþjóð síðustu heimaleikir Íslands í undankeppninni en íslenska liðið leikur við það sænska á útivelli 27. október, Slóvakíu úti 26. nóvember og loks Ungverjaland á útivelli 1. desember. 

Tveir leikmenn gætu leikið sinn fyrsta landsleik í verkefninu nú í september en þær Sveindís Jane Jónsdóttir hjá Breiðabliki og Barbára Sól Gísladóttir Selfossi eru í hópnum í fyrsta skipti. Þá hafa þær Karólína Lea Vilhjálmsdóttir Breiðabliki og Fylkiskonan Cecilía Rán Rúnarsdóttir leikið einn landsleik hvor. 

Berg­lind Björg Þor­valds­dótt­ir kem­ur inn í hóp­inn á ný en hún missti af lands­leikj­un­um á Spáni í mars þegar hún komst ekki þangað frá Ítal­íu vegna út­breiðslu kór­ónu­veirunn­ar, en hún samdi á dögunum við Le Havre í Frakklandi. Þá koma varnarmaðurinn Anna Björk Kristjáns­dótt­ir, miðjumaður­inn Al­ex­andra Jó­hanns­dótt­ir og markvörður­inn Sonný Lára Þrá­ins­dótt­ir inn í hóp­inn á ný en þær voru ekki í hópn­um í mars.

Frá æfingu liðsins á Laugardalsvelli.
Frá æfingu liðsins á Laugardalsvelli. mbl.is/Árni Sæberg

Fann­dís Friðriks­dótt­ir er í barneigna­fríi og Hild­ur Ant­ons­dótt­ir er frá vegna meiðsla. Þær Sig­ríður Lára Garðars­dótt­ir, Natasha Anasi, Berg­lind Rós Ágústs­dótt­ir, Anna Rakel Pét­urs­dótt­ir og Ingi­björg Val­geirs­dótt­ir voru einnig í hópn­um í mars en eru ekki vald­ar að þessu sinni.

Markverðir:
Sandra Sig­urðardótt­ir | Val­ur | 29 leik­ir
Cecil­ía Rán Rún­ars­dótt­ir | Fylk­ir | 1 leik­ur
Sonný Lára Þrá­ins­dótt­ir | Breiðablik | 7 leik­ir

Varn­ar­menn:
Barbára Sól Gísla­dótt­ir | Sel­foss
Guðný Árna­dótt­ir | Val­ur | 7 leik­ir
Ingi­björg Sig­urðardótt­ir | Vål­erenga | 30 leik­ir
Elísa Viðars­dótt­ir | Val­ur | 38 leik­ir
Anna Björk Kristjáns­dótt­ir | Sel­foss | 43 leik­ir
Gló­dís Perla Viggós­dótt­ir | Rosengård | 84 leik­ir, 6 mörk
Hall­bera Guðný Gísla­dótt­ir | Val­ur | 112 leik­ir, 3 mörk

Miðju­menn:
Gunn­hild­ur Yrsa Jóns­dótt­ir | Val­ur | 71 leik­ur, 10 mörk
Karólína Lea Vil­hjálms­dótt­ir | Breiðablik | 1 leik­ur
Al­ex­andra Jó­hanns­dótt­ir | Breiðablik | 5 leik­ir, 1 mark
Dagný Brynj­ars­dótt­ir | Sel­foss | 88 leik­ir, 26 mörk
Rakel Hönnu­dótt­ir | Breiðablik | 102 leik­ir, 9 mörk
Sara Björk Gunn­ars­dótt­ir | Lyon | 131 leik­ur, 20 mörk

Sókn­ar­menn:
Svein­dís Jane Jóns­dótt­ir | Breiðablik
Hlín Ei­ríks­dótt­ir | Val­ur | 14 leik­ir, 3 mörk
Svava Rós Guðmunds­dótt­ir | Kristianstad | 22 leik­ir, 1 mark
Agla María Al­berts­dótt­ir | Breiðablik | 30 leik­ir, 2 mörk
Sandra María Jessen | Le­verku­sen | 31 leik­ur, 6 mörk
Berg­lind Björg Þor­valds­dótt­ir | Le Havre | 44 leik­ir, 4 mörk
Elín Metta Jen­sen | Val­ur | 49 leik­ir, 14 mörk

mbl.is