Toppslagurinn færður til einu sinni enn

Breiðablik vann stórsigur, 4:0, í fyrri leiknum gegn Val á …
Breiðablik vann stórsigur, 4:0, í fyrri leiknum gegn Val á Kópavogsvelli í sumar. mbl.is/Árni Sæberg

Viðureign Vals og Breiðabliks í Pepsi Max-deild kvenna er einn þeirra fótboltaleikja sem mest er beðið eftir hérlendis á þessu tímabili, enda mun hann fara langt með að ráða úrslitum um hvort liðið verður Íslandsmeistari árið 2020.

Leikurinn hefur verið færður talsvert til að undanförnu, fyrst vegna kórónuveirunnar og lengi stóð síðan til að hann færi fram næsta miðvikudag, 30. september.

Fyrr í vikunni var honum seinkað um tvo daga, til föstudagsins 2. október, en í dag var tilkynnt að hann færi fram síðar. Endanleg dagsetning, væntanlega, er nú laugardagurinn 3. október og flauta skal til leiks á Hlíðarenda klukkan 17.

Bæði lið leika einn leik áður en á morgun tekur Breiðablik á móti ÍBV á Kópavogsvellinum og Valskonur sækja Fylki heim í Árbæinn.

Valur er með 37 stig gegn 36 stigum Breiðabliks en Blikar eiga eftir að spila fimm leiki og Valskonur fjóra. Yfirburðir liðanna eru miklir í deildinni því Fylkiskonur sem eru í þriðja sæti eru með 20 stig.

mbl.is