Ekki mikil smithætta af fótboltaiðkun

Guðni Bergsson, formaður KSÍ.
Guðni Bergsson, formaður KSÍ. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við erum búin að vera takast á við þessa ákvörðun að undanförnu og það er gott að vera búinn að koma þessu frá sér,“ sagði Guðni Bergsson, formaður KSÍ, í samtali við mbl.is í dag.

Knattspyrnusamband Íslands ætlar að leggja allt kapp á að klára Íslandsmótið 2020 en sambandið sendi frá sér fréttatilkynningu þess efnis í dag eftir ströng fundarhöld síðustu daga.

„Þetta var erfið ákvörðun að taka og við erum búin að fara mjög vel það regluverk sem nú er gildandi varðandi þá stöðu sem uppi er á Íslandi. Það eru ákveðnar áskoranir fram undan og ef við horfum á alla þá þætti sem spila inn í þessa ákvörðun þá var að gríðarlega miklu að huga. Við ætlum okkur hins vegar að klára Íslandsmótið, deildarkeppnina, og reyna ljúka þessu með eins eðlilegum hætti og hægt er.

Við höfum orðið vör við mismunandi skoðanir um hvað sé best að gera innan hreyfingarinnar. Við gerum okkur grein fyrir því að aðstæður félaganna eru misjafnar, bæði eftir landshlutum og deildum. Þetta verður mikil áskorun að ljúka mótinu, við gerum okkur grein fyrir því, en við studdumst við reglugerðina um kórónuveirufaraldurinn, að endingu þar sem kemur skýrt fram að við munum nýta nóvembermánuð til þess að ljúka mótahaldi ef svo ber undir,“ sagði Guðni.

Akureyringar mega áfram æfa og iðka sínar íþróttir á meðan …
Akureyringar mega áfram æfa og iðka sínar íþróttir á meðan blátt bann ríkir við því á höfuðborgarsvæðinu. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Takmarkanir gera okkur erfitt fyrir

Samkvæmt nýjustu sóttvarnareglum mega félög á höfuðborgarsvæðinu ekki æfa með bolta sem dæmi á meðan félög úti á landi mega æfa án takmarkana en ætlar KSÍ að beita sér fyrir því og setja pressu á stjórnvöld að félög á höfuðborgarsvæðinu geti æft eðlilega á næstu dögum.

 „Það er erfitt að segja til um það. Við getum ekki meinað einhverjum að æfa á landsbyggðinni og við gerum okkur grein fyrir því að takmarkanirnar eru bundnar við landshluta sem gerir okkur ennþá erfiðara fyrir.

Það myndi að sjálfsögðu auðvelda okkur mikið af þessum takmörkunum á höfuðborgarsvæðinu yrði aflétt og því fyrr því betra. Við erum að miða við 3. Nóvember eins og staðan er í dag en við viljum auðvitað alls ekki útiloka það að einhver undanþága verði veitt, ef baráttan við faraldurinn gengur vel.“

Topplið úrvalsdeildar kvenna, Breiðablik og Valur, mega ekki æfa með …
Topplið úrvalsdeildar kvenna, Breiðablik og Valur, mega ekki æfa með bolta. mbl.is/Íris

Ætlar ekki að metast

Margir hafa gagnrýnt þá ákvörðun stjórnvalda að leyfa opnun líkamsræktarstöðva á meðan börn, krakkar og afreksíþróttafólk má ekki æfa, utan né innandyra.

„Ég ætla ekki að fara út í það að metast um eitt og annað varðandi þær takmarkanir sem hér eru í gildi. Að sama skapi teljum við ekki mikla smithættu af fótboltaiðkun og það hafa ekki komið upp mörg smit tengd æfingum eða fótboltaiðkun af okkur vitandi.

Við höfum aðeins heyrt af því að ungmenni hafi smitast að undanförnu sem eru tengd fótboltastarfi en við vitum ekki fyrir víst hvort það sé í kringum vinahópa eða skólastarf. Heilt yfir þá hafa farið fram yfir þúsund leikir í öllum flokkum hér á landi í sumar, og æfingar auðvitað, og er ekki hægt að rekja beint smit til þeirra eftir því sem við komumst næst.

Við teljum okkur hafa gert allt til þess að skapa öflugt sóttvarnaumhverfi og unnið það vel í samráði við yfirvöld. Við munum að sjálfsögðu halda því áfram í framtíðinni,“ bætti Guðni við í samtali við mbl.is.

Steven Lennon er á góðri leið með að bæta markamet …
Steven Lennon er á góðri leið með að bæta markamet efstu deildar en það gerist ekki ef tímabilinu verður aflýst. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is