Valsmenn fögnuðu þrátt fyrir takmarkanir

Skjáskot úr umræddu myndbandi af fagnaðarlátum Valsmanna.
Skjáskot úr umræddu myndbandi af fagnaðarlátum Valsmanna. Skjáskot

Karlalið Vals í knattspyrnu hefur sætt gagnrýni eftir fögnuð liðsins vegna Íslandsmeistaratitils sem það hreppti í gær. Titillinn féll í hendur Vals eftir að Knattspyrnusamband Íslands tók ákvörðun um að blása öll Íslandsmót af vegna kórónuveirunnar. 

Valsmenn fögnuðu ákaflega í Fjósinu, samkomustað á Hlíðarenda í gærkvöld. Hertar aðgerðir vegna Covid-19 tóku gildi á miðnætti en þegar Valsmenn slettu úr klaufunum var 20 manna samkomubann í gildi. 

Miðað við myndir af fögnuðinum voru talsvert fleiri þar en tuttugu. Myndbönd sýna fram á að tveggja metra reglan hafi verið virt að vettugi. Valsmenn deildu myndum og myndbandi með stuðningsmönnum sínum. 

Arnar Daði Arnarsson, þjálfari Gróttu í efstu deild karla í handbolta, vakti athygli á málinu á Twitter í gær þar sem hann birti mynd af liði Vals og skrifaði „Samkomubann hvað?“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert