Rak þjálfara Breiðabliks heim af æfingu

Þorsteinn Halldórsson, þjálfari Breiðabliks, lék 150 leiki í efstu deild …
Þorsteinn Halldórsson, þjálfari Breiðabliks, lék 150 leiki í efstu deild með FH, KR og Þrótti á árunum 1986 til ársins 1999. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lögmaðurinn og fyrrverandi knattspyrnumaðurinn Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson var gestur Jóhanns Skúla Jónssonar í hlaðvarpsþættinum Draumaliðinu á dögunum.

Þátturinn hefur vakið mikla athygli enda sögur Vilhjálms margar hverjar afar skemmtilegar en lögfræðingurinn á að baki 131 meistaraflokksleik með Þrótti í Reykjavík, Fram, Víkingi úr Reykjavík og Hvöt.

Vilhjálmur lék 24 leiki í efstu deild með Þrótti og Fram en hjá Þrótturum lék hann undir stjórn alþingismannsins Willums Þórs Þórssonar frá 1997 til ársins 1998 en Þróttarar léku í efstu deild sumarið 1998.

Þorsteinn Halldórsson, fyrrverandi leikmaður KR og FH og nú þjálfari Íslandsmeistara Breiðabliks í úrvalsdeild kvenna, lék einnig með Þrótturum þetta sumar en hann og Vilhjálmur eru góðir félagar.

„Við vorum eitt sinn á æfingu á malarvellinum í Sæviðarsundinu, sem var meira einhver grjóthnullungavöllur frekar en eitthvað annað,“ sagði Vilhjálmur í Draumaliðinu en Willum tók iðulega þátt í æfingum liðsins, þrátt fyrir að vera að þjálfa það.

„Þetta var í apríl og völlurinn var frosinn. Willum var frekar pirraður á æfingunni og fannst menn ekki vera að „nýta besta kostinn“ sem er mjög þekktur frasi hjá honum en besti kosturinn var að sjálfsögðu að gefa alltaf á hann.

Svo sendir Steini boltann á hann, rétt fyrir framan hann, en Willum nær ekki til boltans. Svo gerist þetta aftur stuttu síðar og þá stoppar Willum æfinguna og segir: Steini þú átt að senda í lappirnar á mér!

Reyndu bara að hreyfa þig þarna hlunkurinn þinn svarar Steini og Willum er ekki skemmt yfir þessu og svarar: Þú ert rekinn af æfingunni, farðu bara heim!

Ég er ekkert að fara heim, ég er að fara í vinnuna svarar Steini og þá öskrar Willum á hann: Þú ert rekinn í vinnuna! 

Ég held að Þorsteinn Halldórsson sé eini maðurinn í íslenskum fótbolta sem hefur verið rekinn í vinnuna,“ bætti Vilhjálmur við í hlaðvarpinu Draumaliðinu.

Willum Þór Þórsson er á meðal reynslumestu þjálfara Íslands.
Willum Þór Þórsson er á meðal reynslumestu þjálfara Íslands. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is