Þróttarar fá liðstyrk

Úr leik Þróttar gegn Magna Grenivík í Lengjudeildinni á síðasta …
Úr leik Þróttar gegn Magna Grenivík í Lengjudeildinni á síðasta tímabili. Arnþór Birkisson

Knattspyrnufélagið Þróttur hefur samið við enska sóknarmanninn Kairo Edwards-John. Kemur hann til liðsins frá Magna Grenivík.

Kairo mun því leika með liðinu í Lengjudeildinni á komandi tímabili. Hann lék vel með Magna á síðasta tímabili og skoraði sex mörk í 20 deildarleikjum en náði þó ekki að koma í veg fyrir fall liðsins úr Lengjudeildinni.

Í frétt Fótbolta.net um félagsskiptin er bent á þá athyglisverðu staðreynd að vítaklúður Edwards-Johns hafi að heita má orðið til þess að nýja félagið hans, Þróttur, hélt sér uppi í Lengjudeildinni á síðasta tímabili.

Þannig var mál með vexti að í síðasta leik deildarinnar áður en hún var flautuð af vegna kórónuveirufaraldursins fengu Magnamenn vítaspyrnu í uppbótartíma gegn Þór Akureyri. Þór var þá 1:0 yfir en vítaspyrna Edwards-Johns fór forgörðum og leiknum lyktaði með sigri Þórs.

Þar með féll Magni á markatölu en hefði liðið náð í eitt stig í leiknum gegn Þór hefði Þróttur fallið í þeirra stað. Þróttur hélt sér hins vegar uppi með því að vera með jafnmörg stig en betri markatölu en Magni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert