Ofboðslega krefjandi ár

Rúnar Kristinsson, þjálfari KR.
Rúnar Kristinsson, þjálfari KR. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Síðastliðið ár hefur verið eitt það erfiðasta á þjálfaraferli Rúnars Kristinssonar, þjálfara karlaliðs KR í knattspyrnu.

Rúnar, ásamt öllu KR-liðinu, var orðinn mjög spenntur fyrir komandi keppnistímabili í úrvalsdeild karla, Pepsi Max-deildinni, en 25. mars tók gildi æfinga- og keppnisbann hér á landi.

Banninu var aflétt á miðnætti og mega íþróttafélög hér á landi því hefja æfingar og keppni á nýjan leik frá og með deginum í dag.

KR hefur leik gegn Breiðabliki í Pepsi Max-deild karla í ár á Kópavogsvelli en til stóð að leikurinn færi fram 24. apríl.

Af því verður ekki og má búast við því að keppni í efstu deild karla hefjist í kringum mánaðamótin apríl-maí.

„Á morgun [í dag] hefjast hefðbundnar æfingar hjá okkur og það verður gott að geta loksins æft allir saman á nýjan leik,“ sagði Rúnar í samtali við Morgunblaðið.

„Við mætum Keflavík í æfingaleik á laugardaginn kemur hér í Vesturbænum og leikum svo við ÍA á Akranesi þarnæsta laugardag. KSÍ er ekki búið að gefa það út hvenær og hvernig verður byrjað og eins og staðan er í dag reiknum við með því að mótið hefjist um mánaðamótin apríl/maí.

Við högum okkar undirbúningi þannig eins og fyrsti leikur Íslandsmótsins verði í kringum 1. maí og næstu tvær vikur fara í að undirbúa liðið eins og best verður á kosið,“ bætti Rúnar við.

Mikilvægar vikur

Rúnar var mjög ánægður með þann stað sem lið hans var á þegar æfinga- og keppnisbannið var sett á laggirnar.

„Við vorum á mjög góðum stað. Við vorum á ákveðnum stað í okkar undirbúningsferli, á fjórðu viku af sex, í þeirri rútínu sem ég hef sett upp fyrir mín lið í gegnum tíðina.

Þá var allt stoppað og það setti að sjálfsögðu strik í reikninginn. Á sama tíma kom upp ákveðin óvissa um það hvenær mótið myndi fara af stað aftur og eins hvenær við gætum hafið æfingar á nýjan leik með öllu liðinu.“

Viðtalið má sjá í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert