Vonandi lágpunkturinn á okkar sumri

Ásgeir Eyþórsson, lengst til vinstri af Fylkismönnunum, í leiknum í …
Ásgeir Eyþórsson, lengst til vinstri af Fylkismönnunum, í leiknum í kvöld. Ljósmynd/Haukur Gunnarsson

„Við náðum ekki neinum takti allan leikinn,“ sagði svekktur Ásgeir Eyþórsson, varnarmaður Fylkis, í samtali við mbl.is eftir 0:3-tap liðsins gegn Leikni úr Reykjavík á útivelli í Pepsi Max-deild karla í fótbolta í kvöld. 

Fylkismenn fengu fá færi gegn skipulögðu Leiknisliði og var leikurinn sá daprasti hjá Árbæingum í sumar til þessa. „Spilamennskan var ekki eins góð og í síðustu leikjum og baráttan ekki heldur. Þetta var samt jafn leikur, þannig séð. Við fáum á okkur markið á slæmum tíma. Þegar við reynum að sækja jöfnunarmarkið fáum við svo tvö í bakið. Vonandi er þetta lágpunkturinn á okkar sumri og við spyrnum okkur úr þessu.“

Ásgeir segir 3:0 ekki endilega gefa rétta mynd af leiknum en viðurkennir að Fylkir hafi átt lítið meira skilið. 

„Mér finnst það ekki en samt vorum við langt frá okkar besta. Við getum ekki kennt neinum um nema sjálfum okkur. Við fengum einhver færi til að jafna þetta en í staðinn fáum við á okkur tvö mörk.“

Fylkir hefur enn ekki unnið leik í sumar og er aðeins með tvö stig eftir fjóra leiki. „Mér fannst vera ágætisstígandi í þessu framan af í þessu. Við áttum ágætisleik á móti HK og góðan leik á móti KR en við vorum langt frá okkar besta í dag. Það er sem betur fer lítið búið, en við verðum að rífa okkur í gang,“ sagði Ásgeir. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert