Við urðum bara að gjöra svo vel að vinna

Arnar Gunnlaugsson á hliðarlínunni í dag.
Arnar Gunnlaugsson á hliðarlínunni í dag. Ljósmynd/Kristinn Steinn Traustason

„Við ræddum fyrir leikinn að ef Stjarnan myndi vinna Val ættum að gjöra svo að gera út um okkar leik,“ sagði Arnar Bergmann Gunnlaugsson þjálfari Víkinga eftir 2:0 á FH í Fossvoginum í dag þegar leikið var 8. umferð í efstu deild karla í fótbolta en með sigrinum tóku Víkingar efsta sætið í deildinni og hafa ekki tapað leik í sumar.

FH byrjaði leikinn af krafti og fengu opið færi á 11. mínútu en Þórður Ingason markvörður varði glæsilega og þjálfarinn segir sitt lið þá komist inní leikinn.  „Það leit ekki vel út fyrstu tíu mínútur leikins, mér fannst við langt á eftir FH-ingum sem stjórnuðu leiknum en um leið og við unnum fyrsta skallaeinvígið var eins og allt snerist við.  Mér fannst gæðin aðeins minnka þegar vindurinn fór að blása en við voru þéttir fyrir, FH var ekki að skapa sér mikið og við hefðum getað gert aðeins betur í að skora fleiri mörk en 2:0 sigur á móti mjög sterku liði FH er mjög gott.   Mér fannst FH-ingar aldrei líklegir til að skora í seinni hálfleik, það sem fór á markið tók Þórður og var öruggur í öllum sínum aðgerðum.  Við vorum þéttir og agaðir í öllum okkar aðgerðum.“ 

Arnar ætlaði sér stóra hluti síðasta sumar en hefur lært, rétt eins og liðið.  „Við erum á toppi deildarinnar núna þegar átta umferðir búnar svo við verðum að sætta okkur við þá staðreynd en við getum ekki talað okkur niður.  Nú er bara gamla tuggan að við þurfum að vera agaðir og reyna að læra af vandamálunum hjá okkur í fyrra.   Tímabilið í fyrra var ekki til einskis, við höfum lært eitthvað af því og bætt í sem vantaði til að gera út um leiki en fyrst og fremst er þetta hjartað og karakterinn í liðinu.“ 

Nikolaj markahæstur

Nikolaj Hansen náði sér ekki á strik í fyrra en hefur látið til sín taka við markaskorun og er nú markahæstur í deildinni.  „Ég held að það séu margar litlar ástæður.  Hann hefur alltaf verið góður í fótbolta og góður á æfingum en tók sig á, breytti mataræðinu aðeins og létti sig aðeins því það eru þessi auka 5% sem þú þarft á að halda til að spila í góðri deild.   Fólk hefur gagnrýnt hann fyrir „markaþurrð“ en hann veit hversu mikið við metum hann hérna í Fossvoginum,“ bætti Arnar við.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert