KA-menn unnu vinnusigur í Breiðholtinu

KA-menn fagna sigurmarki Ásgeirs Sigurgeirssonar í Breiðholtinu í dag.
KA-menn fagna sigurmarki Ásgeirs Sigurgeirssonar í Breiðholtinu í dag. Ljósmynd/Haukur Gunnarsson

KA-menn báru góðan útisigur úr býtum, 1:0, á Leiknismönnum á Domusnova-vellinum í 14. umferð úrvalsdeildar karla í knattspyrnu í dag. Leikurinn einkenndist af harðri baráttu en veðuraðstæður voru ekki þær bestu sem sést hafa í sumar. 

Leikurinn fór fremur hægt af stað og virtust bæði lið vera að reyna að fóta sig í strekkingsvindi og rigningarúða, sem einkenndi megnið af leiknum. Það voru hins vegar heimamenn í Leikni sem fengu fyrsta færi leiksins á 13. mínútu þegar Emil Berger gaf boltann innfyrir á Sævar Atla Magnússon, næstmarkahæsta mann deildarinnar. Steinþór Már Auðunsson, markvörður KA-manna greip hins vegar vel inn í aðstæður, og var það ekki í síðasta sinn sem hann átti eftir að láta að sér kveða í leiknum. 

KA-menn komust yfir strax í næstu sókn eftir færið, en Ásgeir Sigurgeirsson fékk þá boltann rétt við vítateigshornið vinstra megin. Hann tók nokkur skref með boltann og skaut honum svo innanfótar stöngin inn í fjærhornið. Markið var virkilega laglegt, og mátti allt eins eiga von á að fleiri myndu fylgja í kjölfarið. 

Hörð barátta ríkti það sem eftir lifði fyrri hálfleiks. Leiknismenn vildu fá dæmda óbeina aukaspyrnu á 22. mínútu, þegar svo virtist sem að Mikkel Qvist hefði gefið boltann til baka á Steinþór, sem tók hann upp með höndum, og skömmu síðar átti Sævar Atli aftur skot, en Steinþór varði vel. Þá varði Steinþór einnig vel á 42. mínútu, en þá komst miðvörðurinn Bjarki Aðalsteinsson í ákjósanlegt skotfæri á markteig eftir hornspyrnu, en Steinþór sá vel við honum. 

Seinni hálfleikur einkenndist af nokkurri stöðubaráttu, þar sem Leiknismenn voru þó heldur meira með boltann og freistuðu þess að jafna leikinn. Þar var Andrés Manga Escobar fremstur í flokki, og fóru flestar af hættulegustu sóknum heimamanna á einn eða annan hátt í gegnum hann. Heimamenn voru þó helst til of mistækir í sókn til þess að skapa sér hættuleg færi. 

Á 78. mínútu átti sér stað umdeilt atvik, en þá virtist sem að KA-maður færi aftan í Sólon Breka Leifsson inni í vítateig gestanna. Erlendur Eiríksson, dómari leiksins, taldi hins vegar ekki ástæðu til þess að blása í flautu sína, og voru heimamenn verulega ósáttir með þá ákvörðun. 

Þó að Leiknismenn reyndu allt hvað þeir gátu til þess að jafna metin náðu þeir ekki að brjóta á bak aftur vörn KA-manna, og sigldu gestirnir því góðum vinnusigri í höfn. Þeir eru nú með 23 stig, og sitja sem stendur í 4. sæti, en KR á enn eftir að spila sinn leik í umferðinni. Leiknismenn létu hins vegar hér gullið færi til að slíta sig endanlega úr botnbaráttunni sér renna úr greipum. 

Það er erfitt að leggja mat á frammistöðu liðanna hér í kvöld, en víst er að KA-menn munu líta á það sem styrkleikamerki að hafa náð þremur stigum á erfiðum útivelli. Þeir horfa nú upp á við, og hyggjast eflaust blanda sér í baráttuna um Evrópusæti af miklum krafti. 

Leiknir R. 0:1 KA opna loka
90. mín. +2 Brotið á KA-manni við hliðarlínuna vinstra megin.
mbl.is