Rosenborg sló út fjórða íslenska liðið

Hólmar Örn Eyjólfsson miðvörður Rosenborg, Björn Daníel Sverrisson og Steven …
Hólmar Örn Eyjólfsson miðvörður Rosenborg, Björn Daníel Sverrisson og Steven Lennon í fyrri leiknum í Kaplakrika. mbl.is/Arnþór Birkisson

Rosenborg vann FH 4:1 í seinni leik liðanna í 2. umferð Sambandsdeildar karla í knattspyrnu á Lerkendal-leikvanginum í Þrándheimi í dag og heldur áfram í 3. umferð keppninnar.  

Rosenborg vann fyrri leik liðanna í Kaplakrika 2:0 og því 6:1 samtals. Sigurliðið mætir Domzale frá Slóveníu í 3. umferðinni. 

Rosenborg vann einnig Breiðablik tvívegis í fyrra og sumarið 2018 sló liðið Val út í Meistaradeildinni en það stóð reyndar tæpt eftir sigur Vals á Hlíðarenda. Þá var Matthías Vilhjálmsson enn hjá félaginu en var þá að jafna sig eftir aðgerð. Hann var í kvöld fyrirliði FH á gamla heimavellinum. 

Rosenborg hefur þar af leiðandi slegið út þrjú íslensk lið á umliðnum árum og er greinilega erfiður biti að kyngja fyrir íslensku liðin. Alls hafa þeir slegið út fjögur íslensk lið á síðustu sex árum en Rosenborg vann KR árið 2015. Norska liðið sem var fastagestur í Meistaradeild Evrópu um tíma hefur alls sex sinnum mætt íslenskum liðum í Evrópukeppnum frá árinu 1967. 

Hólmar Örn Eyjólfsson lék allan leikinn í miðri vörninni hjá Rosenborg og André Hansen sem lék með KR fyrir meira en áratug síðan stóð í markinu. 

Guðmann Þórisson skoraði fyrir FH í kvöld.
Guðmann Þórisson skoraði fyrir FH í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Staðan var markalaus eftir daufan fyrri hálfleik en leikurinn var líflegri í síðari hálfleik. Dino Islamovic braut ísinn á 49. mínútu en hann skoraði einnig í Kaplakrika. Stefano Vecchia skoraði beint úr aukaspyrnu á 54. mínútu. Rosenborg þurfti á þessum tímapunkti ekki að hafa miklar áhyggjur af gangi mála samanlagt.

Guðmann Þórisson minnkaði muninn á 74. mínútu eftir hornspyrnu Stevens Lennons og stoðsendingu Eggerts Gunnþórs Jónssonar. Varamaðurinn Emil Konradesen Ceide svaraði því hins vegar með tveimur mörkum á 76. og 87. mínútu. 

Rosenborg 4:1 FH opna loka
90. mín. Björn Daníel Sverrisson (FH) fer af velli
mbl.is