Gamla ljósmyndin: Óbein aukaspyrna

Morgunblaðið/Júlíus

Íþrótta­deild Morg­un­blaðsins og mbl.is held­ur áfram að gramsa í mynda­safni Morg­un­blaðsins og birta á mbl.is á laug­ar­dög­um. 

Í undankeppninni fyrir HM karla í knattspyrnu 1990 átti Ísland möguleika að komast í lokakeppni í fyrsta skipti. Þegar keppnin var hálfnuð hafði íslenska landsliðið gert tvívegis jafntefli gegn Sovétríkjunum. Liðinu sem spilað hafði úrslitaleikinn á EM 1988. 

Heimaleikur gegn Austurríki í júní 1989 hafði mikla þýðingu. Útlit var fyrir harða bárattu um annað sætið í riðlinum á milli Íslands, Austurríkis, Austur-Þýskalands og Tyrklands en ekkert lið sat eftir riðlinum ef þannig má að orði komast. Ísland hafði einnig gert jafntefli gegn Tyrklandi ytra við mjög erfiðar aðstæður. 

Liðin gerðu markalaust jafntefli á Laugardalsvellinum og svo fór að Austurríki fylgdi Sovétríkjunum á HM á Ítalíu 1990 eða ári síðar.

Íslendingar óðu í færum í leiknum en tókst ekki að skora. Atli Eðvaldsson skallaði reyndar í netið í fyrra hálfleik en var dæmdur brotlegur. Íslendingar voru undrandi á þeim dómi en þó ekkert í líkingu við aðra ákvörðun dómarans í síðari hálfleik. 

Þá var brotið á Ásgeiri Sigurvinssyni í vítateig Austurríkis. Í stað þess að dæma vítaspyrnu var dæmt óbein aukaspyrna inni í vítateig. Brotið má sjá á meðfylgjandi mynd sem Júlíus Sigurjónsson tók og birtist á bls 62 með umfjöllun um leikinn í Morgunblaðinu 15. júní 1989. 

„Dómarinn, sem var oft mjög hliðhollur Austurríkismönnum, lokaði augunum fyrir vítaspyrnu á 64. mín. Þá léku þeir Ásgeir Sigurvinsson og Guðmundur Torfason skemmtilega í gegnum austurrísku vörnina - með þríhyrningsspili. Ásgeir komst á auðan sjó, en áður en hann náði til knattarins var brotið á honum, þannig að hann féll. Öllum til undrunar dæmdi dómarinn óbeina aukaspyrnu,“ skrifaði Sigmundur Ó. Steinarsson m.a. sem fjallaði um leikinn fyrir Morgunblaðið.  

„Fyrst hann var að dæma fannst mér ekkert annað koma til greina en vítaspyrna. Brot inni í teig eru víti, nema hindrun, og þetta var alls ekki hindrun,“ hafði Morgunblaðið eftir Ásgeiri sjálfum. Á ágætri mynd Júlíusar má einmitt sjá hvar velski dómarinn var staðsettur. 

Í austurrískum blöðum var einnig sagt að austurríska liðið hafi fengið aðstoð dómarans til að ná stigi gegn smáþjóðinni. 

Úrslitum leikja verður sjaldnast breytt eftir á en þó var ekki allt búið enn því viðtal við fyrirliða Austurríkis vakti mikla athygli en leikurinn á Íslandi var kveðjuleikur hans fyrir austurríska landsliðið. Um það er skrifað með eftirfarandi hætti í bókinni Íslenska knattspyrna 1989: 

„Ummæli fyrirliða Austurríkis, Herberts Prohaska, í austurrísku dagblaði vekja furðu. Þar segir hann að velski dómarinn King hafi beðið sig um að gefa sér búning sinn að leiknum loknum, og Prohaska segist hafa samþykkt það með því skilyrði að leikurinn endaði 0:0!“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert