Vorum skrefinu á eftir frá byrjun

Hildur Antonsdóttir með boltann í leiknum gegn Real Madrid í …
Hildur Antonsdóttir með boltann í leiknum gegn Real Madrid í kvöld. Ljósmynd/Tom Delrat

„Þetta var erfitt kvöld. Við vorum skrefinu á eftir frá byrjun og það var vont að fá á sig fyrsta markið svona snemma. Við hefðum líka auðveldlega getað komið í veg fyrir helming markanna,“ sagði súr Ásta Eir Árnadóttir, fyrirliði Breiðabliks, eftir 0:5-útitap liðsins gegn Real Madrid í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu í fótbolta í kvöld.

Breiðablik mætti París SG á heimavelli í fyrsta leik og tapaði þá 0:2 í mun jafnari leik. Frammistaðan í kvöld var ekki eins góð, eins og lokatölurnar gefa til kynna.

„Í fyrsta lagi var þetta kerfi sem við erum ekki vön að keppa á móti. Við vorum að spila á móti mjög góðu liði og kannski vorum við ekki tilbúnar. Við eigum ekki að tapa 0:5 á móti þessu liði,“ sagði Ásta. Hún viðurkennir að stemningin í klefanum eftir leik hafi ekki verið sérstök.  

„Andrúmsloftið er ekkert sérstakt. Við erum svekktar með úrslitin og við hefðum getað spilað betur. Við getum hinsvegar ekki dvalið við þetta að eilífu. Riðilinn er ekki búinn, þetta eru bara tveir leikir. Við gerum eins og við getum til að ná í úrslit í nóvember. Næstu vikur verða góðar fyrir hópinn og við komum sterkari til baka,“ sagði Ásta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert