„Búnir að bíða lengi eftir þessum leik“

Óttar Bjarni Guðmundsson fyrirliði Skagamanna.
Óttar Bjarni Guðmundsson fyrirliði Skagamanna. Ljósmynd/Haukur Gunnarsson

Óttar Bjarni Guðmundsson, fyrirliði knattspyrnuliðs ÍA, var til viðtals á blaðamannafundi á Laugardalsvelli fyrir bikarúrslitaleik ÍA og Víkings sem fram fer á laugardaginn. Hann segir Skagamenn vera spennta fyrir leiknum. „Við erum bara fullir eftirvæntingar. Erum búnir að bíða lengi eftir þessum leik.“

ÍA endaði tímabilið í Pepsi Max-deildinni frábærlega en þegar nokkrar umferðir voru eftir var útlit fyrir að ekkert gæti bjargað þeim frá falli. Þeir hins vegar sneru við blaðinu og unnu síðustu þrjá leiki sína í deildinni ásamt því að komast í bikarúrslitin. „Við erum mjög bjartsýnir. Við ætlum bara að reyna að halda áfram þaðan sem frá var horfið og reyna að taka þennan meðbyr sem var með okkur í síðustu leikum og koma bikarnum uppá Skaga.“

Talsvert langt er síðan ÍA vann síðast titil og eru margir Skagamenn nú farnir að vona að breyting verði á því. „Það er kominn tími á titil. Þetta eru orðin einhver 18 ár held ég frá síðasta titli þannig að ég held að allir á Skaganum verði glaðir að sjá bikar koma þangað aftur.“

mbl.is