Sinntum skítavinnunni vel 

Ísak Andri Sigurgeirsson skoraði glæsilegt mark í dag.
Ísak Andri Sigurgeirsson skoraði glæsilegt mark í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ísak Andri Sigurgeirsson var á skotskónum í dag þegar Stjarnan vann KA 2:0 í 7. umferð Bestu deildar karla í fótbolta. Ísak Andri náði algjöru draumamarki þegar hann negldi boltanum í slá og niður eftir að hafa platað tvo miðjumenn KA. Var mark hans fyrra mark Stjörnunnar í nokkuð þægilegum og öruggum sigri. 

Kappinn er enn bara 18 ára en hefur komið flottur til leiks í Bestu deildinni í sumar. Þótti tilvalið að fá hann í viðtal eftir leik. 

Sæll Ísak Andri. Ég verð nú að viðurkenna að ég þekki ekkert til þín sem leikmanns. Er þetta fyrsta tímabilið þitt í efstu deild? 

„Ég byrjaði 2020 með Stjörnunni en var ekki mikið að spila í fyrra og fór á lán til ÍBV og var þar seinasta sumar. Svo bara stóð ég mig vel á undirbúningstímabilinu og er búinn að vera að spila leikina í byrjun sumars.“ 

Þetta mark þitt var glæsilegt, hálfgert draumamark, sláin inn.  

„Það var mjög gott að fá þetta mark, bara upp á sjálfstraustið og til að hjálpa liðinu. Þetta var jafn leikur og lítið af færum. Það varð því að nýta þau vel.“ 

Þetta var frekar lokaður leikur, lítið um færi en ágætt spil úti á vellinum. KA náði bara ekkert að opna ykkur. 

„Mér fannst við spila þennan leik vel. Þeir fundu eiginlega engar opnanir. Við vorum bara þéttir og sinntum skítavinnunni vel. Þetta má kalla iðnaðarsigur. Bestu sigrarnir eru svona.“ 

Þið eruð búnir að leggja Víking, Val og KA í sumar og voruð í hörkuleik gegn Blikum. Hvernig er tilfinningin fyrir liðinu og komandi leikjum? 

„Mér líður bara mjög vel með liðið. Maður er að spila með fullt af vinum sínum og svo eru nokkrir eldri leikmenn sem geta kennt manni heilmikið. Þetta er því góð blanda. Við erum annað hvort ungir eða gamlir. Það er ekki mikið um 20-30 ára leikmenn hjá okkur.“ 

Það er þá skemmtilegt fyrir ykkur guttana að fá að vera með köllunum.  

„Já það er bæði skemmtilegt og gefur manni ákveðna reynslu.“ 

En þú varst með ÍBV í fyrra. Það hefur eflaust verið ákveðið ævintýri. 

„Það var geggjað sumar. Ég fór þangað í júlíglugganum og ég lærði alveg helling þar, ekki bara í fótboltanum. Ég bjó sko einn og þetta var því góð reynsla upp á lífið sjálft. Ég myndi segja að þetta hafi gert allt gott fyrir mig. Ég myndi mæla með þessu fyrir stórborgarbörnin. Þetta var bara gott í alla staði“ sagði Ísak Andri að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert