Funheitur leikur á dagskrá í kvöld

Stuðningsmenn Víkings á Meistaravöllum í fyrra.
Stuðningsmenn Víkings á Meistaravöllum í fyrra. Arnþór Birkisson

Einn leikur og jafnframt stórleikur er á dagskrá í 11. umferð Bestu deildar karla í knattspyrnu í kvöld. KR tekur á móti Víkingi úr Reykjavík í Vesturbænum og ef eitthvað má marka síðasta tímabil þá er hörkuleikur framundan. 

Svo skemmtilega vill til að félögin drógust saman í 8-liða úrslit Mjólkurbikarsins er dregið var í höfuðstöðvum KSÍ í gær. Leikur liðanna þar fer fram 31. júlí á Víkingsvelli. 

Arnsr Gunnlaugsson, þjálfari Víkings, sagði meðal annars: „Það er svaka saga á milli þessara félaga síðustu ár,“ í samtali við mbl.is eftir dráttinn í gær. Enda er raunin sú.

Liðin léku þrjá leiki á milli sín á síðustu leiktíð. 

Fyrsti leikurinn endaði með dramatísku 1:1 jafntefli á Víkingsvelli þar sem Kristján Flóki Finnbogason, framherji KR sem hefur ekkert spilað á tímabilinu vegna meiðsla, jafnaði metin í uppbótartíma. 

Liðin mættust næst í 16-liða úrslitum Mjólkurbikarsins. Þar fór Víkingur létt með KR og var það aftur Kristján Flóki sem skoraði á 90. mínútu, en í þetta skipti bara til að minnka muninn í tvö mörk. Lokatölur urðu 3:1 og Víkingar urðu bikarmeistarar í kjölfarið. 

Aðal dramatíkin átti sér stað er liðin mættust á sama stað og nú í næstsíðustu umferð úrvalsdeildarinnar. Fyrir leik var Breiðablik í efsta sæti með 44 stig og Víkingur úr Reykjavík í því öðru með 42 stig. 

Blikar áttu á sama tíma leik gegn FH og dugði þeim jafntefli í þeim leik til að halda efsta sætinu fyrir lokaumferðina. En því náðu þeir ekki. 

Pétur Viðarsson skoraði mark FH-inga. En stærsta atvikið í þeim leik átti sér stað á 77. mínútu þegar Árni Vilhjálmsson, fyrrum leikmaður Breiðabliks, brenndi af vítaspyrnu og við stóð 1:0 fyrir Hafnfirðingum. 

Í leiknum í Vesturbænum var mikill hiti frá upphafi. KR-ing­ar komust snemma yfir með marki Kjart­ans Henry Finn­boga­son­ar á ní­undu mín­útu. Atli Bark­ar­son jafnaði met­in skömmu síðar með marki á 16. mín­útu eft­ir að KR-ing­ar misstu bolt­ann klaufa­lega frá sér á miðjunni. 

Helgi Guðjónsson skoraði svo sigurmark Víkinga á 87. mínútu er hann skallaði hornspyrnu Loga Tómassonar í netið.

Það sem fylgdi í kjölfarið var heldur eftirminnilegt en mbl.is var á leiknum og skrifaði:

Það ætlaði síðan allt að sjóða upp úr í upp­bót­ar­tíma þegar að brot virt­ist eiga sér stað í víta­teig Vík­inga. Dóm­ari virðist byrja á að dæma horn­spyrnu en sá dóm­ur endaði í víta­spyrnu. Mik­ill ágrein­ing­ur átti sér stað milli leik­manna á meðan þessu stóð og virt­ust hnef­ar fara á loft. Kjart­an Henry Finn­boga­son, fram­herji og marka­skor­ari KR-inga, end­ar á að fá á sig rautt spjald og Þórður Inga­son, vara­markmaður Vík­inga. 

Drama­tík­inni var þó ekki lokið en Ingvar Jóns­son gerði sér lítið fyr­ir og varði vítið frá Pálma Rafni Pálma­syni við mik­inn fögnuð Vík­inga.

Við lok leiks fékk aðstoðarþjálf­ari Vík­inga Hajrudin Car­daklija þriðja rauða spjald leiks­ins, og þar með voru ell­efu spjöld kom­in á loft.

Víkingur tryggði sér svo Íslandsmeistaratitilinn í næstu umferð gegn Leikni með 2:0 sigri. Víkingur varð einnig bikarmeistari eftir 3:0 sigur á ÍA. 

Að leiknum í kvöld. Hann var færður um einn dag að ósk Víkings þar sem liðið mætir Malmö út í Svíþjóð á þriðjudaginn.

KR hefur byrjað tímabilið undir væntingum og situr í sjötta sæti með 16 stig, fjóra sigra, fjögur jafntefli og þrjú töp eftir ellefu leiki. KR vann síðasta leik sinn gegn Njarðvík í bikarnum þar sem Færeyingurinn Hallur Hansson skoraði sigurmarkið er rúmar 10 mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma. KR tapaði þó nokkrum dögum áður 4:0 fyrir Breiðabliki í deildinni. 

Í dag er gott tækifæri fyrir KR að koma sér á beinu brautina gegn gríðarlega sterkum mótherja í góðu formi. 

Víkingur er í fínasta formi og hefur unnið sjö leiki í röð í öllum keppnum. Víkingar fóru létt með efsta lið 1. deildarinnar, Selfoss, í síðasta leik sínum og vann 6:0. Víkingur vann einnig forkeppni Meistaradeildar Evrópu er liðið lagði Levadia Tallinn frá Eistlandi 6:1 og Inter d'Escaldes frá Andorra 1:0. 

Víkingur getur minnkað forskot Breiðabliks niður í átta stig með sigri í dag og komið örlitla spennu í toppbaráttuna. 

Hörkuleikur framundan í Vesturbænum sem hefst klukkan 19:15. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert