Forréttindi að spila í Víkinni í dag

Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkinga.
Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkinga. Eggert Jóhannesson

„Það er svaka saga á milli þessara félaga síðustu ár,“ sagði Arnar Bergmann Gunnlaugsson í samtali við mbl.is er Víkingur úr Reykjavík dróst á móti KR í 8-liða úrslitum Mjólkurbikars karla í fótbolta. Leikið verður í Víkinni 31. júlí.

Svakaleg átök urðu í leik á milli liðanna í næst síðustu umferð úrvalsdeildar karla í fyrra þar sem Víkingur kom sér fyrir ofan KR með marki á 87. mínútu frá Helga Guðjónssyni. Ingvar Jónsson, markvörður Víkings, varði svo víti sem Pálmi Rafn Pálmasson tók á síðustu mínútu uppbótartíma og allt sauð upp úr fyrir og eftir vítaspyrnuna. 

„Það er svaka saga á milli þessara félaga síðustu ár. Þessir leikir hafa haft töluverð áhrif á bæði bikarkeppnina, þar sem við slógum KR út, og auðvitað stóri leikurinn í deildinni í fyrra. Þetta eru tvö af sterkustu liðum landsins. Ég er fyrst og fremst ánægður með að hafa fengið heimaleik, það er einhver rómantík við bikarleiki í Víkinni.“

Víkingur hefur unnið sjö leiki í röð í mismunandi keppnum eftir brösuglega byrjun.

„Það var svolítið brösótt byrjun hjá okkur á tímabilinu. Mér fannst við samt alltaf vera á réttri leið þótt við vorum að tapa leikjum af því frammistaðan var mjög góð. Það þurfti að stilla nokkra hluti sem við erum búnir að gera og erum búnir að vinna sjö leiki í röð í mismunandi keppnum gegn mismunandi andstæðingum. Ég tel okkur vera í góðu formi og er mjög ánægður með hvernig liðið hefur þróast.“

Lítur ekki á töfluna

Víkingur er í þriðja sæti 11 stigum á eftir Breiðablik en á leik til góða. 

Það er kannski erfitt að koma til baka þegar annað lið er búið að vinna tíu af ellefu leikjum?

„Já klárlega, það er búið að setja ákveðin „standard.“ Við megum samt ekki hugsa of mikið um það. Á meðan við getum enn náð þeim, sem ég tel að við getum, er enn góður möguleiki að vera með í baráttunni í október. Ef við förum að hugsa of mikið um töfluna og að þeir þurfi að tapa þremur leikjum og við sigra þrjá þá getum við verið fljótir að tapa einbeitingu. Ef ég er alveg hreinskilin þá horfi ég ekkert á töfluna. 

Forréttindi að spila í Víkinni

Hvernig leggjast næstu vikur í ykkur?

Það eru fullt af stórleikjum framundan. Fyrst núna KR á morgun, svo Malmö út í Svíþjóð í vikunni, svo ÍA og svo aftur Malmö. Það eru forréttindi að vera fótboltamaður í Víkinni í dag.

Þetta er það stærsta sem maður kemst í á Íslandi, að verja tvo titla og eiga stórleiki í Evrópukeppni. Þetta er það sem menn eru búnir að dreyma um og leikmennirnir okkar eiga að líta á þetta sem forréttindi að vera hluti af þessum hóp. Mér finnst þeir hafa stigið upp all svakalega síðustu vikur þar sem Evrópukeppnin var erfið og það fór mikil athygli á hana. Ég held að sú reynsla muni klárlega hjálpa það sem eftir er tímabils,“ sagði Arnar að lokum. 

mbl.is