„Sannfærður um að við náum að snúa genginu við“

Skagamenn fara yfir málin fyrir leik í kvöld.
Skagamenn fara yfir málin fyrir leik í kvöld. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Þjálfarinn Jón Þór Hauksson er í djúpum skít með lið ÍA í Bestu deild karla í fótbolta. Lið hans er njörfað niður á botni deildarinnar og hefur tapað sjö leikjum í röð. Í dag voru það KA-menn sem unnu 3:0-sigur gegn lánlausum Skagamönnum. Skagamenn misstu mann af velli með rautt spjald og markalaust var fram á 68. mínútu. 

Hvað segir maður eftir svona leik? Lið þitt sýndi þétta og góða frammistöðu, líka eftir að þið urðuð manni færri. Svo kemur eitt mark frá KA, sem brýtur ísinn fyrir þá og þeir ganga á lagið. 

„Nákvæmlega þannig var þetta. Fram að fyrsta marki KA þá útfærðu strákarnir varnarleikinn virkilega vel, ekki síst tíu á móti ellefu. Þeir gáfu engin færi á sér. Ég man ekki eftir færi hjá KA á fyrstu 15-20 mínútunum í seinni hálfleik. Ég er gríðarlega ánægður með þessa framgöngu og karakterinn í liðinu.

Það var svekkjandi að fá á sig þetta fyrsta mark. Við áttum tvo, þrjá sénsa á að koma boltanum í burtu. Við þurftum svo að koma okkur framar á völlinn. KA gekk bara á lagið, enda frábærlega mannað fótboltalið með mikil einstaklingsgæði. Þeir kláruðu sitt virkilega vel en það breytir því ekki að ég er mjög ánægður með mitt lið.“ 

Þið misstuð mann af velli með rautt spjald á 35. mínútu. Er eitthvað sem þú vilt segja um það? 

„Þetta er stórt atvik, sem gjörbreytir leiknum. Það hafa verið stór atvik í leikjunum okkar núna eins og  t.d. í síðasta leik okkar gegn Val. Þessi atriði falla ekki með okkur en við verðum bara að halda áfram og leggja hart að okkur til að breyta því og snúa svona atvikum okkur í vil og það mun gerast því strákarnir eru virkilega að leggja sig alla fram. Það kemur til með að skila sér.“ 

Ég get ekki orðað það öðruvísi en að það sé mjög spennandi áskorun fyrir ykkur í næstu leikjum. Það eru fimm leikir eftir af deildarkeppninni þar sem þið eigið að mæta ÍBV, FH, Leikni, KR og Keflavík. Svo koma fimm aukaleikir í lokin gegn neðstu liðunum. 

„Fyrir okkur byrjar bara nýtt mót núna og það má orða það þannig að það sér tvöföld umferð í keppni um að vera áfram í Bestu deildinni. Það eru tvisvar sinnum fimm leikir og það er klárt að við verðum að keyra á fullri ferð í þá leiki. Ég er jákvæður og bjartsýnn á framhaldið ef við leggjum jafn mikið í leikina og í síðustu þrjá. Ég er sannfærður um að við náum að snúa genginu við.“ 

Hermann Hreiðarsson var hér á KA-vellinum með ÍBV fyrir nokkrum vikum. Lið hans hafði ekki unnið leik fram að því og tapaði á grátlegan hátt fyrir KA. Eftir þann leik hefur ÍBV unnið þrjá leiki af fimm. Verður þetta ekki bara eins hjá ykkur? 

„Við vonum það. Kannski mun sigurganga KA-manna smitast á okkur og við tökum hana með okkur heim“ sagði Jón Þór léttur í bragði. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert