Vorum fullákafir í sigurinn

Rúnar Kristinsson, þjálfari KR, á leik liðsins fyrr í sumar.
Rúnar Kristinsson, þjálfari KR, á leik liðsins fyrr í sumar. Ljósmynd/Guðmundur Bjarki

„Okkur langar mikið til að vinna og leggjum allt í sölurnar í báðum þessum leikjum þegar staðan er 3:3, en þá erum við kannski fullákafir,“ segir Rúnar Kristinsson, þjálfari KR, en Vesturbæingar töpuðu í gærkvöldi 4:3 fyrir Leikni í Bestu deild karla. Þetta var annar leikurinn í röð sem KR tapar eftir að hafa jafnað metin í 3:3.

„Við gerum þá mistök og fáum mark í andlitið eftir að hafa eytt mikilli orku í að jafna. Ég held að við þurfum að læra það og kannski ákveðinn þroski sem þarf að eiga sér stað, að við getum ekki ætt með alla fram þegar það er nýbúið að jafna, það þarf að vera ákveðið jafnvægi í liðinu,“ segir Rúnar og bætir við að Leiknismenn hafi klárað skyndisóknir sínar vel.

Rúnar segir að eftir að Leiknismenn komust yfir í upphafi leiks hafi KR-ingar herjað vel á þá. „Við sækjum og sækjum, þeir komast varla yfir miðju í fyrri hálfleik eftir markið,“ segir Rúnar, þó að hann viðurkenni að KR hafi kannski ekki skapað sér eins opin færi og þeir hefðu viljað. Hann nefnir þó bæði Theódór Elmar og Ægi Jarl, sem hefðu vel getað jafnað áður en jöfnunarmarkið kom.

Kristinn Jónsson, bakvörðurinn sterki, kom inn á í leiknum þegar rúmur hálftími lifði leiks og setti mark sitt á leikinn. „Ég er frábærlega ánægður með að fá Kidda til baka, og í dag kom hann til baka, Finnur Tómas er að koma til baka, Flóki er að koma til baka, Kjartan kemur inn á og skorar, Stefán Ljubicic kemur inn á og stendur sig vel, og á stóran þátt í öðru markinu okkar,“ segir Rúnar.

„Andinn í liðinu er til staðar, liðið er til staðar, en við þurfum að fækka mistökunum. Við höfum gert allt of mikið af mistökum og vorum að ræða það inni í klefanum hvar við viljum vera. Við viljum vera og enda í topp sex, og fá að spila þá leiki, en þá þurfum við að gera betur en í dag. Að fá á sig fjögur mörk í dag er of mikið,“ segir Rúnar.

Undir lok leiksins gerðu KR-ingar í tvígang kröfu um vítaspyrnu, en undirritaður játar við Rúnar að hann hafi ekki séð seinna atvikið nægilega vel. „Nei, nei, okkur fannst þetta vera vítaspyrna, við höldum með KR og fannst á okkur brotið, en dómarinn var þá nýbúinn að láta okkur hafa vítaspyrnu og eflaust erfitt að dæma aftur,“ segir Rúnar.

„En ég þarf eins og þú að sjá þetta aftur í sjónvarpinu, en dómarinn sér þetta bara einu sinni, þetta gerist snöggt og hann tekur ákvörðun. Ég gagnrýni hann ekki fyrir það, Jóhann Ingi dæmdi þennan leik mjög vel,“ segir Rúnar að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert