Keflvíkingar frábærir í 12 marka leik

Alex Freyr Elísson og Rúnar Þór Sigurgeirsson í einvígi í …
Alex Freyr Elísson og Rúnar Þór Sigurgeirsson í einvígi í leiknum í dag. Ljósmynd/Kristinn Steinn

Keflavík vann lygilegan 8:4-sigur á Fram í ellefu marka leik á Framvellinum í Úlfarsárdal í 22. umferð Bestu deildar karla í knattspyrnu í dag. Með sigrinum tóku Keflvíkingar jafnframt 7. sætið af Fram.

Leikurinn var bráðfjörugur strax frá upphafi og voru skoruð ein sjö mörk í fyrri hálfleik. Joey Gibbs kom gestunum í forystu strax á 9. mínútu með marki af stuttu færi áður en Alex Freyr Elísson og Guðmundur Magnússon sneru taflinu við fyrir Fram á 13. og 17. mínútu. Alex stýrði boltanum framhjá Sindra Kristni Ólafssyni í markinu eftir stungusendingu frá Guðmundi sem skoraði svo sjálfur annað mark Fram eftir sendingu frá Tiago Fernandes.

Keflvíkingar gerðu þó gott betur eftir rúmlega hálftímaleik og skoruðu tvö mörk á tveimur mínútum. Magnús Þór Magnússon jafnaði metin á 35. mínútu með skalla eftir hornspyrnu frá Adam Ægi Pálssyni. Mínútu síðar átti svo Adam glæsilega fyrirgjöf inn í teig sem Kian Williams skoraði úr með skalla. Staðan orðin 2:3. Framarar voru aðeins fjórar mínútur að jafna aftur metin, Jannik Pohl gerði það eftir darraðardans inn í vítateig í kjölfar aukaspyrnu Tiago. Keflvíkingar voru þó ekki búnir og skoruðu annað mark upp úr hornspyrnu á 42. mínútu, Dagur Ingi Valsson skoraði með skalla eftir fyrirgjöf Adams Ægis. Staðan 3:4 í hálfleik, Keflavík í vil.

Síðari hálfleikurinn var ekki síður æsilegur en sá fyrri. Keflvíkingar bættu í forystu sína á 57. mínútu er Ernir Bjarnason skoraði af stuttu færi eftir að Ólafur Íshólm Ólafsson varði boltann út í teig eftir skalla frá Gibbs. Varð þá munurinn tvö mörk í fyrsta sinn í leiknum. Gestirnir skoruðu svo sjötta markið sitt á 75. mínútu, Williams laumaði knettinum í vinstra hornið eftir atgang inn í teig Framara sem spiluðu afleitan varnarleik í nær allan dag.

Heimamenn voru þó ekki alveg búnir að gefast upp, Jannik Pohl skoraði sitt annað mark á 79. mínútu og fjórða mark Framara. Hann fékk þá sendingu inn fyrir vörnina, vann einvígi sitt við Magnús Þór og skoraði svo. Adam Árni Róbertsson skoraði svo besta mark leiksins með þrumufleyg, viðstöðulaust, upp í vinstra hornið á 89. mínútu eftir að Joey Gibbs tíaði boltann upp fyrir hann. Adam Ægir Pálsson kórónaði svo frábæran leik sinn með marki af stuttu færi í uppbótartíma, áttunda mark gestanna.

Lokatölur 4:8 í ótrúlegum leik og er Keflavík í 7. sætinu eftir 22 umferðir með 28 stig, þremur stigum á undan Frömurum í 8. sætinu.

Deildinni verður nú skipt fyrir fimm síðustu umferðirnar þar sem efstu sex liðin mætast innbyrðis og neðstu sex sömuleiðis. Bæði þessi lið áttu möguleika á að enda í efri hlutanum með sigri í dag en þá hefði Stjarnan sömuleiðis þurft að tapa gegn FH. Garðbæingar unnu 2:1-sigur á Hafnfirðingum og því verða bæði Keflavík og Fram í neðri hlutanum. Liðin spila næst sunnudaginn 2. október. Þá taka Framarar á móti Leikni úr Reykjavík og Keflavík spilar á heimavelli gegn ÍA. Þessi tvö lið eru kannski líklegust til að berjast um 7. og efsta sæti neðri hlutans en Framarar verða þó líka að horfa um öxl. Sigur Leiknis á ÍA í dag þýðir að Fram er ekki nema sex stigum frá fallsæti og Framarar eru sjálfir án sigurs í síðustu fimm leikjum sínum.

Fram 4:8 Keflavík opna loka
90. mín. Fimm mínútur í uppbótartíma.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert