Sleit hásin á fyrstu æfingunni

Geoffrey Castillion skoraði tíu mörk í 19 leikjum með Árbæingum …
Geoffrey Castillion skoraði tíu mörk í 19 leikjum með Árbæingum sumarið 2019. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Knattspyrnumaðurinn Geoffrey Castillion sleit hásin á æfingu með Grindavík í æfingaferð liðsins á Spáni í gær.

Það er fótbolti.net sem greinir frá þessu en sóknarmaðurinn, sem er 31 árs gamall, er þessa dagana á reynslu hjá Grindavík.

Framherjinn mun að öllum líkindum ekki spila mikinn fótbolta í sumar vegna meiðslanna og fær hann ekki samning í Grindavík að því er fram kemur á fótbolta.net.

Castillion þekkir vel til á Íslandi eftir að hafa leikið með Víkingi úr Reykjavík, FH og Fylki hér á landi en hann á að baki 53 leiki í efstu deild þar sem hann hefur skorað tíu mörk.

mbl.is