Sýnir hugarfarið hjá honum

Aron Jóhannsson með boltann í leiknum í kvöld.
Aron Jóhannsson með boltann í leiknum í kvöld. Ljósmynd/Hákon Pálsson

Aron Jóhannsson, leikmaður Vals, var að vonum ánægður eftir sigur á Víkingi, 3:2, í Bestu deild karla í knattspyrnu í Víkinni í kvöld. Fyrir leik var Víkingur með fullt hús stiga.

„Þetta var frábær sigur. Eins og allir vita er ekki auðvelt að ná stigum af Víkingum og við erum fyrsta liðið í ár til að vinna þá. Þetta er gott fyrir okkur og við sýnum okkur og öðrum að það er hægt að vinna þá. Ég er bara virkilega ánægður með þetta.

Ef ég væri með uppskriftina til að vinna þá væri ég nú góður þjálfari. Þetta var bara barátta tveggja góðra liða. Víkingur er með frábært lið og hefur verið að spila mjög góðan bolta. Við erum búnir að vera aðeins að hiksta undanfarna leiki en litum á þennan leik sem algjöran úrslitaleik og frábært fyrir bæði okkur og hlutlausa áhorfendur að það sé smá líf í mótinu. Nú þurfum við bara að halda áfram og sýna svona frammistöðu í hverjum einasta leik.“

Arnar Grétarsson, þjálfari Vals, talaði um að Valur hefði þurft að ná í þrjú stig í kvöld. Aron tekur undir þau orð.

„Við litum á þetta sem úrslitaleik um hvort við ætluðum að vera menn eða mýs og hvort við ætluðum að vera með í þessu móti eða ekki. Við komum hingað og stóðum okkur.“

Öll þrjú mörk Vals í leiknum voru lík að því leyti að boltinn var settur inn fyrir vörn Víkings og síðan komu hlaup inn í teiginn.

„Við lögðum þetta ekkert sérstaklega upp bara fyrir þennan leik. Við erum með hörkuduglega kantmenn sem eru með mikla hæfileika. Tryggvi [Hrafn Haraldsson] kemur inn fyrir þennan leik og Adam [Ægir Pálsson] kemur inn þegar Guðmundur Andri [Tryggvason] meiðist. Við erum með hörkuhóp og þegar menn eru rétt stilltir erum við með eitt af bestu liðum landsins. Það er ekki auðvelt fyrir t.d. Tryggva að vera búinn að vera svona mikið á bekknum en koma svo inn í liðið og sýna svona frammistöðu. Við erum með hörku flottan mannskap.

Eins og Aron kemur inn á var Tryggvi Hrafn í byrjunarliði Vals og var að öðrum ólöstuðum maður leikins. Hann skoraði fyrstu tvö mörk liðsins og lagði svo það þriðja upp, fyrir Aron.

„Þetta sýnir hugarfarið hjá honum. Hann hefði getað verið í fýlu og pirraður á æfingum en hann er bara búinn að leggja sig fram og sýnir á vellinum í dag að hann er frábær leikmaður.

Það þýðir ekkert að vera bara sáttir núna eftir þessa frammistöðu heldur þurfum við að sýna þetta aftur á föstudaginn á móti FH ef við ætlum að vera að berjast um fyrsta sætið. Það er markmiðið okkar.“

Tryggvi Hrafn átti frábæran leik í kvöld.
Tryggvi Hrafn átti frábæran leik í kvöld. Ljósmynd/Hákon Pálsson
mbl.is