Í framlengingu þarf maður bara að klára sig

Jakob Franz verst Stjörnumönnunum Hilmari Árna Halldórssyni og Emil Atlasyni …
Jakob Franz verst Stjörnumönnunum Hilmari Árna Halldórssyni og Emil Atlasyni í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Varnarmaðurinn Jakob Franz Pálsson átti skínandi fínan leik fyrir KR er liðið tryggði sér sæti í undanúrslitum bikarkeppni karla í knattspyrnu í kvöld. Liðið lagði Stjörnuna, 2:1, á Meistaravöllum.

„Þetta er bara geggjað. Það var frábært að ná að vinna, sérstaklega svona í framlengingu.“

KR leiddi stærstan hluta leiksins en í uppbótartíma venjulegs leiktíma jafnaði Stjarnan metin og knúði fram framlengingu. KR-liðið sýndi hins vegar karakter í framlengingunni og Ægir Jarl Jónasson skoraði sigurmark liðsins.

„Algjörlega. Við fórum inn í framlenginguna með það í hausnum að við ætluðum að vinna þennan leik. Við féllum svolítið aftarlega í lokin en við sýndum góðan karakter með að koma til baka, skora þetta mark og halda út.“

Stjarnan var talsvert meira með boltann eftir að Ægir hafði skorað annað mark KR en heimamenn virtust þó ekki vera í teljandi vandræðum með að verjast sóknaraðgerðum gestanna.

„Við lögðum okkur alla fram í þessari varnarvinnu og allt liðið á mikið hrós skilið fyrir að klára þennan leik. Ég er bara ótrúlega sáttur.“

KR-ingar virtust flestir eiga nægilega mikið eftir á tanknum til að hlaupa og berjast áfram í framlengingunni. Jakob segir það vera blanda af líkamlegu formi og andlegum styrk.

„Þetta var bara bæði. Í framlengingu þarf maður bara að klára sig. Við fáum frí á morgun og tökum svo góða endurheimt og áfram gakk.“

KR mætir ríkjandi bikarmeisturum í undanúrslitunum en dregið var í hálfleik á Meistaravöllum í kvöld.

„Það er bara frábært. Þetta verður bara skemmtilegur leikur, undanúrslitaleikur. Auðvitað vill maður komast í úrslitin og ég er bara mjög spenntur fyrir þessu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert