Hvalreki á Hlíðarenda

Gylfi Þór Sigurðsson í treyju Vals.
Gylfi Þór Sigurðsson í treyju Vals. Ljósmynd/Valur

Gylfi Þór Sigurðsson er kominn í Val og leikur með félaginu í Bestu deildinni næstu tvö árin, miðað við að allt gangi upp samkvæmt samningnum sem félagið tilkynnti um í gærmorgun.

Þetta eru einhver stærstu tíðindi í sögu efstu deildar karla hér á landi. Ef ekki þau stærstu, alla vega síðan Sigurður Jónsson sneri 26 ára gamall heim frá Arsenal árið 1992 og átti stóran þátt í fjórum meistaratitlum Skagamanna í röð.

Valsmenn hafa reyndar sjálfir fengið stórar sendingar erlendis frá; þegar þáverandi landsliðsfyrirliði Atli Eðvaldsson kom heim frá Þýskalandi árið 1988 og þegar þeir fengu Arnór Guðjohnsen árið 1998. Báðir settu þeir sterkan svip á deildina á þeim tíma, enda afburða knattspyrnumenn og þrautreyndir atvinnumenn, rétt eins og Gylfi.

Og ekki má gleyma Kára Árnasyni sem hjálpaði Víkingum heldur betur til að snúa blaðinu við og komast á toppinn í íslenska fótboltanum.

Athygli á deildinni

Börkur Edvardsson, formaður knattspyrnudeildar Vals, vildi ekki gefa upp hvað samningurinn við Gylfa kostaði félagið en sagði í viðtali á mbl.is í gær að hann ætti von á því að heimkoma Gylfa myndi vekja mun meiri athygli á Bestu deildinni, innanlands sem utan, en verið hefur.

Það er eflaust mikið til í þessu, svo framarlega sem Gylfi verður heill og spilar megnið af leikjum Valsmanna á komandi tímabili verður gríðarlega vel fylgst með honum og aðsókn á bæði heimaleiki og útileiki Hlíðarendaliðsins mun vafalítið aukast umtalsvert.

En Valsmenn eru fyrst og fremst að fá stórt tromp á höndina fyrir baráttuna um stóru titlana, og ekki síður ætti þetta að auka möguleika þeirra á að ná langt í undankeppni Sambandsdeildarinnar síðsumars.

Umfjöllunina má lesa í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert