„Menn eru enn þá í áfalli“

Daníel Leó Grétarsson, lengst til hægri, svekktur í leikslok.
Daníel Leó Grétarsson, lengst til hægri, svekktur í leikslok. Ljósmynd/Alex Nicodim

Miðvörðurinn Daníel Leó Grétarsson var sár og svekktur eftir 2:1-tap Íslands fyrir Úkraínu í úrslitaleik umspils um laust sæti á EM 2024 í knattspyrnu karla í Wroclaw í Póllandi í kvöld.

„Þetta er ekki það sem við ætluðum okkur. Við ætluðum okkur alltaf á EM en það hafðist ekki í dag og það er erfitt að koma orði að hlutunum,“ sagði Daníel Leó í samtali við mbl.is eftir leik.

Fannst þetta detta þeirra megin

Hvað vantaði upp á?

„Ég veit það ekki. Mér fannst við berjast allan tímann og vera með þá ágætlega. Þeir voru ekki að skapa mikið af færum á okkur og svo fannst mér þetta bara detta þeirra megin. Við fengum okkar færi,“ sagði hann.

Úkraína setti pressu á íslenska liðið á köflum.

„Mér fannst það allt í lagi en við máttum halda aðeins betur í boltann þegar við fengum hann. Þegar þeir voru með boltann voru þeir ekki að skapa mikið. Okkur leið ágætlega neðarlega í vörninni.

Mér fannst við gera það nokkuð vel og vinna varnarvinnuna saman og reyna að skapa eitthvað þegar við vorum með boltann,“ útskýrði Daníel Leó.

Stuðningsmenn Íslands svekktir.
Stuðningsmenn Íslands svekktir. Ljósmynd/Alex Nicodim

Einn af stærstu leikjum ferilsins

Ísland fékk nokkur góð færi í stöðunni 1:1 en náði ekki að nýta þau.

„Já, algjörlega og við skorum. Kannski föllum við of aftarlega og vorum of passífir en mér fannst við allir vera á sömu blaðsíðu í dag og fannst við vera svolítið óheppnir,“ sagði hann og bætti við:

„Þetta er einn af stærstu leikjunum sem maður hefur spilað á ferlinum og það er erfitt að taka þessu.“

Ætluðum okkur á EM

Spurður hvernig hann hafi upplifað sigurmarkið sem Mykhailo Mudryk skoraði seint í leiknum sagði Daníel Leó:

„Ég er ekki búinn að skoða það almennilega, ég á eftir að gera það. Við föllum niður og förum að verja vítateiginn og svo kemur ein sending út og hann nær góðu slútti.

Að lokum var hann spurður hvort eitthvað hafi verið sagt í búningsklefanum eftir leikinn.

Menn eru bara enn þá í áfalli. Við ætluðum okkur á EM en við tökum stöðuna seinna þegar menn eru búnir að ná áttum,“ sagði Daníel Leó að lokum við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert