Ég skemmdi leikinn fyrir liðinu

Guðbjörg ver skot í leiknum í kvöld.
Guðbjörg ver skot í leiknum í kvöld. AFP

„Ég geri mér fulla grein fyrir því að ég skemmdi leikinn fyrir liðinu. Þetta eru verstu mistök sem ég hef gert á ferlinum. Ég veit ekki hvað ég get sagt meira,“ sagði sársvekkt Guðbjörg Gunnarsdóttir, markmaður íslenska landsliðsins í knattspyrnu, við mbl.is eftir 3:0 tap gegn Austurríki í lokaleik Íslands á Evrópumótinu í Hollandi. 

Guðbjörg gerði sig seka um mjög slæm mistök í fyrsta marki Austurríkis. Hún missti þá boltann mjög klaufalega frá sér, beint fyrir fætur Sarah Zadrazil, sem skoraði auðveldlega. 

„Ég gerði mitt allra besta til að reyna að „blokka“ þetta og gleyma þessu. Ég hugsa oft fyrir leiki að ég ætli að halda áfram ef ég geri mistök og ég reyndi að gera það eftir bestu getu en það er erfitt. Þú undirbýrð þig ekki fyrir svona mistök fyrir leik og það er rosalega langt síðan þetta kom fyrir mig. Það var örugglega þegar ég var unglingur á Íslandi og ég man ekki eftir því að hafa gert svona kjánaleg mistök. Það var erfitt að spila eftir það.“

„Ég á erfitt með að leikgreina okkar leiki því ég er að hugsa um eigin frammistöðu. Það hljóta að vera einhverjir jákvæðir punktar hjá liðinu en það er erfitt fyrir mig sem einstakling að sjá þá núna því mér líður eins og ég hafi skemmt fyrir liðinu.“

Íslenska liðið var með háleit markmið fyrir mót og ætlaði sér ekkert annað en að komast upp úr riðlinum. Guðbjörg segir liðið ekki hafa verið með of stórar yfirlýsingar fyrir mótið. 

„Mér fannst það ekki, það hefði verið hallærislegt að fara í þetta mót og segjast ætla ekki upp úr riðlinum. Við erum með þéttara lið en við sýndum í þessu móti og við verðum að nota HM til að sýna fólki að við eigum fullt inni. Það er erfitt fyrir okkur sem íþróttamenn að æfa svona lengi, leggja svona mikið á okkur og geta svo ekki toppað á réttum tíma.“

Guðbjörg segist hafa spilað mun betur með Djurgårdens í Svíþjóð en hún hefur gert með landsliðinu að undanförnu. 

„Ég veit sjálf að ég hef staðið mig geggjað vel í síðustu leikjum Djurgårdens en næ svo ekki þessum extra markvörslum með landsliðinu. Það er erfitt að kyngja því. Það er erfitt að hafa verið að spila í einhverjum öðrum gír sem þú kemur þér svo ekki upp í með landsliðinu. Ég á engar útskýringar af hverju það er svoleiðis.“

Guðbjörg hrósaði Frey Alexanderssyni, þjálfara íslenska liðsins, í hástert og segir hann besta þjálfara sem hún hefur haft á ferlinum. 

„Ég hefði ekki breytt neinu í undirbúningi fyrir mótið. Ég hef aldrei verið eins undirbúin fyrir neitt mót, hvorki deild né stórmót. Freysi er geggjaður þjálfari, sennilega sá besti sem ég hef haft. Ég hef farið víða á löngum ferli og ég get ekki nefnt einhvern sem er betri en hann og hann átti miklu meira skilið.“

Býst Guðbjörg við því að vera með á næsta Evrópumóti?

„Ég er ekki búin að hugsa fjögur ár fram í tímann. Ég geri mér enga grein fyrir því, það fer eftir því hvernig líkaminn á mér er. Ég get ekki hætt eftir svona leik og svona mistök,“ sagði Guðbjörg að lokum. 

mbl.is

LEIKIR Í DAG - 19. MARS

Útsláttarkeppnin

LEIKIR Í DAG - 19. MARS

Útsláttarkeppnin