Við spyrnum okkur af botninum

Sif Atladóttir (til vinstri) í baráttunni á mótinu.
Sif Atladóttir (til vinstri) í baráttunni á mótinu. AFP

Sif Atladóttir, varnarmaður íslenska landsliðsins, var að vonum svekkt eftir 3:0 tap liðsins gegn Austurríki í lokaleik Íslands á Evrópumótinu í Hollandi í kvöld. Hún er samt sem áður mjög þakklát fyrir þann stuðning sem hún og liðið hafa fengið meðan á mótinu stóð. 

„Að tapa 3:0 er erfitt. Eina sem ég vil að komi almennilega fram eru þakkir til stuðningsmanna og mig langar að þakka frábæru baklandi og ykkur fjölmiðlum, þið hafi fjallað stórkostlega um mótið og því miður gátum við ekki knúið fram úrslitin sem við vildum fá.“

Sif er staðráðin í að sjá hvað fór úrskeiðis á þessu móti og gera betur í komandi verkefnum. 

„Í upphitun fannst mér við vera gíraðar í leikinn en það var eitthvað. Það er erfitt að segja það því mér fannst við vera tilbúnar. Við vinnum sem lið og töpum sem lið. Í dag töpuðum við og við munum skoða okkur og fara yfir þetta. Við sjáum hvað við getum fundið og gert betur. Við spiluðum ekki eins og ég bjóst við. Við erum með háleit markmið og við vildum fara upp úr riðlinum en það gekk ekki. Við þurfum að setjast niður og ræða okkar hluti. Við spyrnum okkur af botninum.“

Sif hélt áfram að þakka fyrir sig og hrósa íslensku stuðningsmönnunum. 

„Þetta er þungt því við erum keppnisfólk. Það versta sem við vitum um er að tapa. Þegar 3.000 manns eru í stúkunni og standa uppi fyrir þér og klappa, þrátt fyrir töp, þá getur maður samt ekki annað en verið stoltur og þakkað kærlega fyrir. Þau og þið hafið komið alla þessa leið og umfjöllunin er búin að vera frábær. Þessar ungu stelpur sem hafa komið til Hollands eru að fara að taka við eftir nokkur ár.“

„Elítufótbolti snýst um úrslit og þau féllu ekki okkar megin en menn mótsins eru okkar stuðningsmenn og þess vegna fer maður brosandi af vellinum. Það er áhorfendum að þakka. Við ætlum að gera betur því við höfum þennan stuðning sem er ómetanlegur,“ sagði Sif. 

mbl.is

LEIKIR Í DAG - 19. MARS

Útsláttarkeppnin

LEIKIR Í DAG - 19. MARS

Útsláttarkeppnin