Það verða allir að vera klárir í bátana á EM

Aron Kristjánsson.
Aron Kristjánsson. Árni Sæberg

„Ég er mjög ánægður með hugarfarið eftir smá slen í byrjun,“ sagði Aron Kristjánsson, landsliðsþjálfari í handknattleik, í samtali við mbl.is í dag. Hann var þá kominn til Hannover ásamt íslenska liðinu eftir eins marks tap fyrir Þýskalandi í Kassel í dag, 26:25.

„Við gerðum nokkur dýr mistök í vörninni í fyrri hálfleik og fengum á okkur aðeins of mikið af mörkum. Það var mikið af smáatriðum sem þurfti að laga í því og náðum að gera það fyrir seinni hálfleikinn. Í sókninni byrjuðum við alltof rólega. Eftir að hafa tekið leikhlé fórum við að auka hraðann og fengum í kjölfarið betri færi,“ sagði Aron, en Ísland var tveimur mörkum undir í hálfleik.

Sjá: Naumt tap Íslands í fyrri leiknum

„Það sýndi mikinn karakter að koma til baka eftir að hafa misst þá fjórum mörkum frá okkur og eiga möguleika að vinna leikinn. Við fengum þá klaufalega brottvísun eftir að hafa verið komnir yfir og svo smáatriði sem féllu þeirra megin í lokin. Við fengum á okkur dýra brottvísun þegar tvær og hálf mínúta var eftir og það er rosalega erfitt í svona leik. Það hefði verið hægt að dæma nokkrum sinnum á Þjóðverjana, en það kannski fylgir því að spila á útivelli í fullri höll í Þýskalandi,“ sagði Aron.

Markverðirnir Björgvin Páll Gústavsson og Aron Rafn Eðvarðsson náðu sér illa á strik í leiknum og vörðu samtals átta skot, þar af aðeins þrjú í fyrri hálfleik. Hefur hann áhyggjur af því?

„Ég hef ekki áhyggjur af henni þannig séð, en þetta var ekki nógu gott í dag. Ég hefði sérstaklega viljað fá fleiri varin skot eftir langskot, en svo voru önnur sem við fengum óvænt á okkur eftir mistök. Bjöggi kemur hins vegar sterkur inn aftur síðasta korterið,“ sagði Aron.

Aron Kristjánsson og Bjarki Már Gunnarsson.
Aron Kristjánsson og Bjarki Már Gunnarsson. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Rétt skref fram á við

Allt í allt segir Aron að hann sé nokkuð sáttur við það sem hann sá og sérstaklega hugarfarið að gefast ekki upp.

„Í heildina er þetta rétt skref fram á við, við erum að bæta okkar leik og sjáum að hlutirnir eru að virka. Það var gott að fá Alexander virkilega vel inn í liðið í dag og í takt aftur. Hann hefur verið frá síðan á síðasta móti og hann fann taktinn vel. Það er planið að hann geti komið inn í hluta af hvorum hálfleik og hjálpa liðinu. Guðmundur Hólmar stóð sig svo frábærlega í vörninni, kom vel inn og gerði góða hluti. Hann er að spila sig inn í þetta hægt og rólega,“ sagði Aron.

Liðin mætast aftur á morgun í síðasta leik sínum fyrir lokakeppni EM og eftir það bíður Arons það að skera niður í leikmannahópnum fyrir förina til Póllands.

Viss atriði sem við viljum laga

„Við verðum að nýta mannskapinn á morgun, enda erum við að spila liðið saman fyrir Evrópumótið og stilla saman strengina. Það verða allir að vera klárir í bátana þegar þangað verður komið, en það eru viss atriði sem við viljum laga fyrir morgundaginn og fá síðustu svörin við spurningunum okkar á morgun,“ sagði Aron og sagði að þeir sem spiluðu lítið í dag munu fá stærra hlutverk á morgun.

Aðspurður um komandi niðurskurð í hópnum sagði Aron það velta mikið til á Bjarka Má Gunnarssyni, sem hefur verið stórt spurningamerki vegna meiðsla. Hann er hins vegar allur að koma til.

„Það var mikið framfaraskref stigið hjá Bjarka í dag og batinn hefur verið hraður eftir áramót. Eftir að hafa stífnað upp gegn Portúgal spilaði hann allan fyrri hálfleikinn í dag og ákváðum svo að hvíla hann meira í seinni hálfleik. En það er mjög gott að hann sé á réttri leið enda gríðarlega sterkur og hefur reynslu af stórmótum sem skiptir máli. Við fáum kannski síðustu svörin á morgun,“ sagði Aron Kristjánsson í samtali við mbl.is.

mbl.is