Enn eitt skrefið í löngum tröppugangi

Guðjón Valur á vítalínunni í gær.
Guðjón Valur á vítalínunni í gær. Ljósmynd/Gordan Lausic

Landsliðsfyrirliðinn, Guðjón Valur Sigurðsson, var hinn rólegasti eftir sætan 26:24-sigur á Svíum á EM í Split í gær en sagði sjaldgæft að upplegg landsliðs gengi jafn vel eftir og það gerði hjá Íslandi framan af leiknum. 

„Við lögðum grunninn að þessu með frábærum fyrri hálfleik. Þar var ótrúlega margt sem gekk upp. Þetta var nánast draumaundirbúningur fyrir leik því nánast allt gekk upp hjá okkur en ekkert hjá andstæðingnum. Í raun er ofsalega sjaldgæft að slíkt gerist á jafn dramatískan hátt og í fyrri hálfleik að þessu sinni. Við erum því ótrúlega ánægðir og stoltir,“ sagði Guðjón Valur í samtali við mbl.is og sagði Svíana hafa verið erfiða þegar leið á. „Þegar Svíarnir sýndu sitt rétta andlit varð þetta auðvitað erfiðara en sterkt fyrir okkur að ná að klára dæmið með sigri.“

Guðjón segir að það þurfi frábært lið til að spila jafn vel og Ísland gerði í gær gegn sterkum andstæðingi í liðlega 45 mínútur. 

„Við höfum séð að þetta býr í okkur. Munurinn á því að vera góður eða frábær er sá að þegar þú ert góður þá geturðu náð góðum köflum í leikjum og kannski góðum hálfleik. En þegar þú ert frábær þá geturðu spilað svona í 45 til 50 mínútur. Þá geturðu tekið leiki yfir og haft öll völd á vellinum. Við sjáum að í okkar strákum býr mikil orka, gæði og efniviður en það þarf að slípa saman yfir ákveðinn tíma. Þetta er bara enn eitt skrefið í þessum langa tröppugangi sem er upp á toppinn,“ sagði Guðjón ennfremur. 

mbl.is