„Þar töpuðum við leiknum“

Aron Pálmarsson að skora í leiknum gegn Króötum í gærkvöld.
Aron Pálmarsson að skora í leiknum gegn Króötum í gærkvöld. Ljósmynd/Uros Hocevar,EHF

„Ég er drullusvekktur yfir þessum fyrstu tíu mínútum í síðari hálfleik. Þar töpuðum við leiknum,“ sagði Aron Pálmarsson í samtali við Morgunblaðið í Spaladium-höllinni í Split í gærkvöldi eftir tap fyrir Króatíu 29:22.

Að loknum fyrri hálfleik var staðan 14:13 en snemma í síðari hálfleik skoruðu Króatar fimm mörk í röð og lögðu grunninn að sigrinum eins og Aron nefndi. „Við spiluðum mjög vel en nýttum ekki þær opnanir sem við fengum. Það er svo skrítið að þetta var vel spilað hjá okkur í sókninni en tókst ekki að ljúka þeim nógu vel. Í 90% tilfella spiluðum við sóknirnar vel en klikkuðum á skotunum eða síðustu sendingunni sem er ekki nógu gott,“ sagði Aron ennfremur.

Króatar fengu gríðarlegan stuðning í troðfullri 12 þúsund manna höllinni í Split en Aron er orðinn ýmsu vanur með landsliðinu og félagsliðum. Hann kippti sér því ekki of mikið upp við andrúmsloftið. „Maður er orðinn svolítið vanur aðstæðum sem þessum og maður reynir að útiloka þetta. En auðvitað er þetta mikill meðbyr sem Króatar fá og það sést glögglega. Við spiluðum vel í fyrri hálfleik og héldum haus. Mér fannst við vera einbeittir í því sem við vildum gera í leiknum og taktískt flottir,“ sagði Aron.

Sjá allt um EM í handbolta í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert