Leikstíll Portúgals hefur ekki hentað Íslandi vel

Ýmir Örn Gíslason stöðvar portúgalskan leikmann á HM í Egyptalandi …
Ýmir Örn Gíslason stöðvar portúgalskan leikmann á HM í Egyptalandi fyrir ári síðan. AFP

Karlalandslið Portúgals í handknattleik tók fram úr karlalandsliði Íslands á síðustu árum. Portúgal hefur náð lengra á síðustu stórmótum en getumunurinn á liðunum hefur þó verið lítill.

Á EM í Ungverjalandi og Slóvakíu, sem hófst í gærkvöldi, mun Ísland vonandi taka fram úr Portúgal í íþróttinni á ný. Liðin mætast í Búdapest í B-riðli keppninnar í kvöld og er þetta annað árið í röð sem Portúgal er fyrsti andstæðingur Íslands á stórmóti.

Portúgal komst ekki í lokakeppni stórmótanna frá árinu 2007 til 2019. Liðið var á EM 2006 en ekki aftur fyrr en á EM 2020. Liðið er nú á fjórða stórmótinu í röð og hefur nánast stimplað sig inn á meðal átta bestu liðanna. Portúgal var til dæmis á Ólympíuleikunum í fyrra og hafnaði í 9. sæti. Engar Evrópuþjóðir ná inn á Ólympíuleikana í handknattleik nema þær séu með hörkulið. Það þekkjum við Íslendingar. Portúgal hafnaði í 10. sæti á HM í fyrra og í 6. sæti á EM í Svíþjóð fyrir tveimur árum.

Ísland hafnaði þá í 11. sæti en vann hins vegar Portúgal 28:25. Portúgal vann hins vegar þegar þjóðirnar mættust í fyrsta leik á HM í fyrra 25:23. Í janúar í fyrra mættust liðin einnig í undankeppni EM og unnu sitt hvorn leikinn. Portúgal vann í Portúgal og Ísland vann á Ásvöllum.

Margir í Meistaradeildinni

Ein af ástæðum þess að Portúgal náði að búa til öflugt landslið eftir mögur ár er sú að fram kom sterk kynslóð í yngri landsliðunum. Þeir leikmenn skiluðu sér upp í A-landsliðið og fengu samninga hjá sterkum félagsliðum. Hljómar kunnuglega, ekki satt?

Önnur ástæða fyrir velgengni portúgalska landsliðsins er sú að leikmenn liðsins leika margir í Meistaradeildinni. Porto er í Meistaradeildinni og hafa margir landsliðsmenn leikið með liðinu. Í Meistaradeildinni eru ekki nema sextán lið og lið Porto er því sterkt. Portúgölsku handboltamennirnir eru því vanir að spila á móti bestu leikmönnum Evrópu og samæfing í félagsliði skilar sér hjá landsliðinu. Einnig eru leikmenn í hópnum hjá Portúgal sem leika með öflugum liðum eins og Montpellier, Pick Szeged og Nantes.

Öfluga leikmenn vantar

Skakkaföll eru hins vegar í portúgalska liðinu. Línumaðurinn Luis Frade er ekki með. Hann leikur með Barcelona og ljóst má vera að það munar um mann sem leikur með Barcelona. André Gomes er öflugur leikmaður sem er hjá Íslendingaliðinu Melsungen og hann er ekki heldur með.

Greinin í heild sinni er í Morgunblaðinu í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »