Ísland með fullt hús eftir mikla spennu

Ísland er með fullt hús stiga eftir tvo leiki á EM karla í handbolta eftir sætan 29:28-sigur á lærisveinum Erlings Richardssonar í Hollandi í kvöld.

Ísland náði mest fimm marka forskoti í seinni hálfleik en hollenska liðið neitaði að gefast upp og náði að jafna. Ísland var þó með sterkari taugar í lokin og vann eftir æsispennandi lokamínútur. 

Ísland byrjaði vel og skoraði tvö fyrstu mörkin á meðan Björgvin Páll varði fyrstu tvær tilraunir Hollendinga. Holland jafnaði í kjölfarið í 4:4 og komst í 5:4. Hollenska liðið var skrefinu á undan þar til á 24. mínútu þegar Ísland komst loks aftur yfir, 11:10 og svo 12:10.

Að lokum munaði tveimur mörkum í hálfleik, 15:13. Hollensku markverðirnir vörðu aðeins eitt skot í öllum hálfleiknum en Ísland tapaði boltanum of oft í sókninni og því var munurinn ekki meiri í hálfleik. Þá komst hollenska liðið stundum of auðveldlega í gegnum vörnina og Kay Smits spilaði vel.

Fyrir utan töpuðu boltana spilaði Ísland vel í sókninni og skapaði sér mikið af flottum færum. Sigvaldi Guðjónsson var markahæstur með þrjú mörk í hálfleiknum og þeir Aron Pálmarsson og Gísli Þorgeir Kristjánsson skoruðu þrjú mörk hvor. Þá lagði Gísli upp fjölmörg færi á liðsfélagana sína.

Ísland byrjaði seinni hálfleikinn á að komast fimm mörkum yfir í fyrsta skipti, 20:15. Hollenska liðið gafst hins vegar ekki upp og með góðum kafla tókst því að minnka muninn í tvö mörk, 24:22, þegar 13 mínútur voru til leiksloka. Sóknarleikur íslenska liðsins hélt áfram að vera slakur næstu mínútur og var staðan 24:24 þegar skammt var eftir.

Eftir æsispennandi lokamínútur vann Ísland eins marks sigur eftir að hafa komist í 29:27 þegar skammt var eftir. Holland skoraði síðasta markið en tókst ekki að jafna. Ísland fékk boltann þegar tæp hálf mínúta var eftir og hélt út.

Sigvaldi Björn Guðjónsson var markahæstur í íslenska liðinu með átta mörk, Aron Pálmarsson skoraði sex og þeir Ómar Ingi Magnússon og Gísli Þorgeir Kristjánsson fjögur hvor. Björgvin Páll Gústavsson varði tíu skot í markinu. 

Ísland er með fjögur stig í toppsæti riðilsins og þar á eftir koma Holland og Ungverjaland með tvö stig hvort en Portúgal er án stiga. Ísland mætir Ungverjalandi í lokaleik sínum í riðlinum á þriðjudag. Öll fjögur liðin eiga möguleika á að komast áfram fyrir lokaumferðina en íslenska liðinu myndi nægja eins marks ósigur til að vera örugglega komið áfram í milliriðil keppninnar.

Holland 28:29 Ísland opna loka
60. mín. Holland tapar boltanum Sóknarbrot og Ísland fær boltann! 28 sekúndur eftir og Ísland er í kjörstöðu.
mbl.is