Skemmtilegra að horfa á liðið núna

Ómar Ingi Magnússon hefur leikið vel á EM.
Ómar Ingi Magnússon hefur leikið vel á EM. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Patrekur Jóhannesson, þjálfari karlaliðs Stjörnunnar í handknattleik, telur að íslenska liðið sé að spila betur á EM 2022 í Ungverjalandi og Slóvakíu en á undanförnum mótum vegna þess að leikmenn eru nú með skýrari hlutverk innan þess.

Ísland er komið áfram í milliriðil 1 eftir að hafa unnið alla þrjá leiki sína í B-riðli mótsins. Fyrsti leikur í milliriðlinum verður gegn heimsmeisturum Danmerkur annað kvöld og sagði Patrekur ekkert að því að byrja riðilinn á leik gegn Danmörku.

„Öll lið sem komast í milliriðil eru góð. Að byrja á Dönum er bara fínt. Auðvitað vonast maður bara eftir sömu orkunni og gæðum sóknarlega. Svo þurfum við, eins og við gerðum í gær [í sigri gegn Ungverjalandi] líka, að fá þessi hraðaupphlaupsmörk og allt þetta.

Þetta er alltaf sama sagan en manni líður bara vel. Mér finnst gaman að horfa á íslenska liðið núna samanborið við síðustu 2-3 mót,“ sagði hann í samtali við mbl.is.

Sterkir einstaklingar njóta sín

Inntur eftir því af hverju það stafaði svaraði Patrekur: „Ég held að menn séu bara öruggari þar sem það eru skýrari hlutverk. Maður sér það til dæmis með Ómar Inga [Magnússon]. Á HM í Egyptalandi spilaði hann kannski einn leik, var á bekknum í næsta og svo uppi í stúku í leiknum eftir það.

Elvar [Örn Jónsson] var oft að spila mikið í sókninni á síðustu mótum en núna er hann bara orðinn varnarmaður. Janus [Daði Smárason] er klár í að koma inn á og Viggó [Kristjánsson] sömuleiðis.“

Hann sagði leikmenn njóta sín vel í því leikkerfi sem Ísland hefur verið að spila á EM.

„Það er lykillinn að velgengni og ef við náum árangri að menn virði sín hlutverk og taki þeim 100 prósent. Auðvitað vilja allir spila alltaf, það er bara eðlilegt.

En mér finnst Gummi [Guðmundur Guðmundsson landsliðsþjálfari] og þjálfarateymið leyfa leikmönnum að njóta sín og leyfa þeim að vera í aðalhlutverki, það er frábært. Við erum með rosalega sterka einstaklinga, mér finnst það vera áberandi að þeim líður vel í þessu fyrirkomulagi,“ sagði Patrekur að lokum í samtali við mbl.is.

Nánar er rætt við Patrek um milliriðilinn, leikinn gegn Danmörku og möguleika Íslands í riðlinum í Morgunblaðinu á morgun.

Patrekur Jóhannesson.
Patrekur Jóhannesson. Ljósmynd/Þórir Tryggvason
mbl.is