Björgvin gerði gæfumuninn

Björgvin Páll Gústavsson varði á mikilvægum augnablikum í gær.
Björgvin Páll Gústavsson varði á mikilvægum augnablikum í gær. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Patrekur Jóhannesson, þjálfari karlaliðs Stjörnunnar í handknattleik, segir markvörðinn Björgvin Pál Gústavsson hafa verið það sem skildi á milli Íslands og heimamanna í Ungverjalandi þegar íslenska liðið vann nauman 31:30-sigur á EM 2022 í Ungverjalandi og Slóvakíu í gær.

Með sigrinum tryggði Ísland sér sæti í milliriðli 1, þar sem liðið mun mæta Danmörku, Frakklandi, Króatíu og Svartfjallalandi.

Sóknarleikur íslenska liðsins gekk mjög vel upp í leiknum gegn Ungverjalandi.

„Í fyrri hálfleik vorum við frábærir sóknarlega. Maður vissi ekki alveg hvort þetta leikkerfi, með Ómar [Inga Magnússon] og Gísla [Þorgeir Kristjánsson] að hefja aðgerðir, myndi ganga en það gekk fullkomlega. Svo vorum við með frábæra nýtingu, hornamennirnir skoruðu mikið og klikkuðu varla á skoti.

Mér fannst flæðið og jafnvægið í liðinu gott, það bara geislaði sjálfstraustið af leikmönnum. Þessar áherslubreytingar sem hafa verið gerðar í sókninni, það gekk bara þannig séð allt upp sóknarlega,“ sagði Patrekur í samtali við mbl.is.

Patrekur Jóhannesson.
Patrekur Jóhannesson. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Varnarleikur Íslands var hins vegar ekki jafn góður. „Ástæðan fyrir því að við vorum ekki meira yfir í leiknum var meðal annars sú að við áttum í miklum erfiðleikum með þennan stóra línumann þeirra [Bence Bánhidi], sem er 208 sentimetrar á hæð. Þeir nýttu hann mjög vel.

Við vorum með okkar hefðbundnu vörn og það myndaðist oft mikið svæði sem þeir nýttu sér mjög vel en Björgvin var mjög góður allan leikinn og það auðvitað skipti mjög miklu máli hvað hann stóð sig vel.

Ég held að aðalbreytingin hjá okkur hafi verið varnarlega í síðari hálfleik. Þá færum við okkur úr þessari aggressívu vörn sem við höfum spilað síðustu ár og þá fannst mér við þétta okkur betur. Björgvin var þá líka að taka þessi skot. Sóknarleikurinn hélt svo áfram að vera góður,“ bætti hann við.

Leikmenn greinilega með sjálfstraust

Patrekur hefur verið ánægður með liðsheild Íslands á mótinu hingað til og átti það ekki síst við um leikinn gegn Ungverjalandi.

 „Maður er hrikalega ánægður með þessa frammistöðu og bara jafnvægið í liðinu. Fyrir mót var ekkert verið að væla eða skæla, það er ekkert stress og maður sér það greinilega að leikmennirnir eru með sjálfstraust.

Til dæmis Ómar Ingi og Gísli, þeir eru að spila og vinna fullt af leikjum í bestu deild í heimi með Magdeburg. Það er svo mikilvægt fyrir okkur að menn komi til liðs við landsliðið í góðu líkamlegu formi, það er alltaf grunnurinn, og svo er hitt sem hjálpar til að ef þú vinnur leiki þá færðu auðvitað meira sjálfstraust,“ sagði hann.

„Við erum þannig séð að spila á fáum mönnum en í þessum leik voru bara allir að gera þetta vel. Aron [Pálmarsson fyrirliði], þó hann hafi ekki verið að skora það mikið, það voru einhver skot sem hann klikkaði á, þá kom hann svo með mörk á mikilvægum augnablikum og það er líka bara þannig með hann að mönnum líður vel að hafa hann inni á vellinum nálægt sér, það er alltaf vigt í honum.

Þessi leikur var mjög krefjandi og ef maður á að nefna einhvern einn þá ver Björgvin víti og fleiri færi á rosalegum kafla undir lokin,“ sagði Patrekur að lokum í samtali við mbl.is.

Nánar er rætt við Patrek um leikinn við Dani og möguleika Íslands í honum í Morgunblaðinu á morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert