Mætum hungruðu íslensku liði

Harald Reinkind í góðu færi í leik Noregs og Rússlands …
Harald Reinkind í góðu færi í leik Noregs og Rússlands en það var fyrri tapleikur norska liðsins af tveimur til þessa á mótinu. AFP

Christian Berge, þjálfari norska karlalandsliðsins í handknattleik, á von á afar erfiðum leik gegn frísku liði Íslands þegar þjóðirnar mætast í lokaleik sínum á Evrópumótinu í Búdapest í dag og leika þar um fimmta sætið og jafnframt öruggt sæti á HM 2023.

„Þetta er mikilvægur leikur. Það er HM-sæti í húfi og við erum klárir í slaginn. Íslendingar hafa spilað virkilega vel á þessu móti. Þeir eru örugglega líka svekktir yfir því að hafa ekki komist í undanúrslitin, þannig að við mætum hungruðu íslensku liði í 60 mínútna baráttu. Það er þeirra einkenni," sagði Berge við heimasíðu norska handknattleikssambandsins.

„Þeir eru með frábæra leikmenn í öllum stöðum. Íslenska liðið er líkamlega sterkt, er tilbúið til að spila grimman varnarleik og skemma alla sóknartilburði mótherjanna. Þeir eru með afar vel skipulagða vörn svo þetta verður virkilega erfiður leikur," sagði Berge, en rétt eins og Íslendingar misstu Norðmenn undanúrslitasætið naumlega úr höndum sér þegar þeir töpuðu með eins marks mun fyrir Svíum.

Harald Reinkind, leikmaður Noregs, segir að lykilatriðið sé að slá á baráttuhug Íslendinganna.

„Þeir berjast og slást í 60 mínútur og peppa hver annan upp. Við þurfum að reyna að slá þá út af laginu. Þeir eru með fullt af góðum leikmönnum og einstaklingsgæðin í liðinu eru mikil. Nú eru þeir farnir að fá aftur leikmenn sem smituðust af kórónuveirunni svo við verðum að gæta okkar virkilega vel á þeim," sagði Reinkind.

„Við erum sjálfir gríðarlega hungraðir. Þessi leikur getur fært okkur sæti á HM. Sama þó við séum svekktir eftir Svíaleikinn - nú er bara eitt í boði: Skella sér aftur á bak og vinna Ísland," sagði Reinkind sem er 29 ára örvhent skytta og leikur með þýska stórliðinu Kiel.

mbl.is