Tekur Erlingur við norska landsliðinu?

Erlingur Richardsson gerði góða hluti með Hollandi á EM.
Erlingur Richardsson gerði góða hluti með Hollandi á EM. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Erlingur Richardsson er einn þeirra þjálfara sem koma til greina sem næsti þjálfari norska karlalandsliðsins að mati TV2 í Noregi. Erlingur þjálfar sem stendur hollenska karlalandsliðið og karlalið ÍBV.

Eyjamaðurinn hefur náð eftirtektarverðum árangri með Hollandi og fór hann með liðið í milliriðla á yfirstandandi Evrópumóti. Hollenska liðið vann sterka sigra á Ungverjalandi, Portúgal og Svartfjallalandi og gerði jafntefli við Króatíu á mótinu.

Christian Berge stýrir norska liðinu í dag og hefur gert frá árinu 2014. Hann stýrði liðinu til fimmta sætis á EM eftir sigur á Íslandi í gær. Berge hefur verið orðaður við Kolstad í Noregi, en mikil uppbygging er í gangi hjá félaginu. Afar sterkir leikmenn eru að ganga í raðir þess á næstu mánuðum og þar á meðal Janus Daði Smárason og Sigvaldi Björn Guðjónsson ásamt a.m.k þremur leikmönnum úr norska landsliðinu.

„Noregi hefur gengið vel með íslenskan þjálfara í kvennaflokki og hvers vegna ekki að treysta á Íslending hjá karlalandsliðinu líka? Erlingur hefur gert vel í þjálfun félags- og landsliða og kom hollenska liðið mikið á óvart á EM. Hann spilar hraðan sóknarbolta sem gæti verið spennandi að sjá með norska liðinu,“ er skrifað um Erling á TV2 en Þórir Hergeirsson hefur náð mögnuðum árangri með kvennalið Noregs á síðustu árum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert