Ný rannsókn í Tevez málinu

Carlos Tevez.
Carlos Tevez. Reuters

Enska knattspyrnusambandið ásamt ensku úrvalsdeildinni ætlar að rannsaka hvort frekari reglur hafi verið brotnar af West Ham í Carlos Tevez málinu og á rannsóknin að beinast að samningi West við umboðsmann leikmannsins eftir að félagið var dæmd til að greiða 5,5 milljónir punda í sekt fyrir að brjóta reglur varðandi félagaskipti.

Samningur Tevez reyndist vera í eigu bresks fjárfestingafélags en reglur úrvalsdeildarinnar banna að leikmenn séu eign þriðja aðila. Sérstakur dómstóll komst að þeirri niðurstöðu að Tevez hefði ekki mátt spila með West Ham vorið 2007 en liðinu tókst á ævintýralega hátt að bjarga sér frá falli, ekki síst fyrir frábæra frammistöðu Argentínumannsins.

Mál Sheffield United gagnvart West Ham er í dómskerfinu en Sheffield-liðið lögsótti West Ham og krefur það um allt að 50 milljónir punda í skaðabætur en Sheffield United féll úr úrvalsdeildinni vorið 2007.

mbl.is

Bloggað um fréttina