„Mahrez er frjálst að fara“

Riyad Mahrez fagnar marki með Leicester.
Riyad Mahrez fagnar marki með Leicester. AFP

Claudio Ranieri, knattspyrnustjóri Leicester City á Englandi, segir að Riyad Mahrez sé frjálst að fara frá félaginu í sumar.

Mahrez, sem er 25 ára gamall, hefur komið öllum á óvart á þessari leiktíð og skorað 14 mörk í 25 leikjum fyrir félagið, en Leicester hefur spilað frábæran bolta það sem af er tímabili og situr í 1. sæti deildarinnar með 53 stig.

Barcelona hefur þegar sýnt Mahrez áhuga en allar líkur eru á því að hann yfirgefi félagið í sumar fyrir stærri klúbb. Ranieri mun ekki standa í vegi fyrir honum.

„Við viljum halda öllum leikmönnum því við höfum trú á þeim. Ef að leikmaður vill hins vegar yfirgefa félagið því hann hefur metnað fyrir því að spila hjá öðru félagi, þá segi ég viðkomandi að njóta þess og óska honum góðs gengis,“ sagði Ranieri.

„Ég vil bara hafa leikmenn sem eru ánægðir hérna. Við munum vaxa sem félag og bæta okkur, en verðum þó aldrei eins og Barcelona og Real Madrid,“ sagði hann að lokum.

mbl.is