Koeman segir fáránlega pressu á Everton

Ronald Koeman, knattspyrnustjóri Gylfa Þórs Sigurðssonar hjá Everton.
Ronald Koeman, knattspyrnustjóri Gylfa Þórs Sigurðssonar hjá Everton. AFP

Ronald Koeman, knattspyrnustjóri Gylfa Þórs Sigurðssonar hjá Everton, segir að það hafi verið sett fáránleg pressa á liðið fyrir tímabilið þar sem því var jafnvel spáð baráttu um Englandsmeistaratitilinn.

„Kannski litu hlutirnir öðruvísi út fyrir aðra þar sem við komumst í riðlakeppni Evrópudeildarinnar og fólk hélt að við ættum að gera miklar rósir. Ég veit hvernig það er að ganga vel og það er fáránlegt að setja þá pressu á liðið að ætla að hafna í efstu fjórum sætum deildarinnar,“ sagði Koeman á fréttamannafundi í dag.

„Öll lið keyptu nýja leikmenn. Við keyptum marga unga leikmenn og það tekur tíma að gefa til baka. En það þýðir ekki að við höfum ekki metnað, en við erum hins vegar raunsæ líka. Allir vissu að við myndum spila marga erfiða leiki í röð en ég er ennþá með fullt traust á liðinu,“ sagði Koeman, sem jafnvel hefur verið sagður valtur í sessi.

„Ég á í góðu sambandi við stjórnina. Í fótbolta þarftu auðvitað að skila sigrum og það á ekki bara við um mig heldur alla knattspyrnustjóra. Við þurfum að sýna núna að við höfum sjálfstraust og sigurinn í gær var besta meðalið. Góð frammistaða leiðir af sér sigra,“ sagði Koeman.

Everton vann þá sinn fyrsta leik í septembermánuði gegn Sunderland í enska deildabikarnum í gær og Koeman horfir til þess að það verði augnablikið sem muni snúa gengi liðsins til hins betra.

„Við skulum vona það og fyrsta skrefið var stigið í gær. Leikurinn á morgun er afar mikilvægur og við þörfnumst sigurs á heimavelli,“ sagði Koeman, en Everton mætir Bournemouth í ensku úrvalsdeildinni á morgun.

mbl.is