Neville næsti stjóri Gylfa?

Phil Neville var fyrirliði Everton undir stjórn David Moyes.
Phil Neville var fyrirliði Everton undir stjórn David Moyes. AFP

Phil Neville hefur áhuga á að taka við starfi knattspyrnustjóra Everton eftir að Hollendingurinn Ronald Koeman var rekinn í gær.

Gylfi Þór Sigurðsson og félagar í Everton eru komnir niður í fallsæti eftir tapið gegn Arsenal á sunnudag og í því ljósi var Koeman látinn fara.

Neville, sem er fyrrverandi fyrirliði Everton, hafði einnig áhuga á að taka við liðinu eftir að David Moyes hætti árið 2013, samkvæmt frétt BBC. Af því varð hins vegar ekki.

Neville, sem er fertugur, lék á átta árum alls yfir 250 leiki fyrir Everton. Hann starfar nú sem sérfræðingur í sjónvarpsþætti BBC, Match of the Day, en langar að verða knattspyrnustjóri. Hann var áður aðstoðarknattspyrnustjóri hjá Valencia á Spáni.

Næsti leikur Everton er gegn Chelsea í enska deildabikarnum á morgun og mun David Unsworth, sem stýrt hefur U23-liði félagsins, stýra Everton í þeim leik og þar til nýr stjóri hefur verið ráðinn.

Fyrrverandi liðsfélagi Nevilles hjá Manchester United, Ryan Giggs, hefur einnig áhuga á stjórastarfinu hjá Everton. Þá hafa Sean Dyche, stjóri Burnley, og Carlo Ancelotti, sem síðast stýrði Bayern München, verið orðaðir við starfið.

mbl.is