Vill fá að mæta City með 14 leikmönnum

Leikmenn Manchester City fagna einu af fjórum mörkum sínum gegn …
Leikmenn Manchester City fagna einu af fjórum mörkum sínum gegn Basel í Meistaradeildinni í gærkvöld. AFP

Paul Cook knattspyrnustjóri Wigan gantaðist með það á fréttamannafundi í dag að hann ætlaði að fara fram á það við enska knattspyrnusambandið að fá að vera með 14 leikmenn inni á vellinum í leiknum gegn Manchester City.

Wigan, sem í öðru sæti í ensku C-deildinni, tekur á móti Manchester City í 16-liða úrslitum ensku bikarkeppninnar á mánudaginn og gerir Cook sér grein fyrir því að hans manna bíði gríðarlega erfitt verkefni enda hefur City-liðið farið á kostum á leiktíðinni.

„Við munum biðja enska knattspyrnusambandið um undanþágu að fá að spila með 14 leikmenn,“ sagði Cook í gamansömum tón.

„Hvernig getur maður sagt að þetta sé bara venjulegur leikur þegar þú ert að fara að spila við lið sem er líklega það besta í heiminum í dag? En þetta verður mikil áskorun fyrir okkur alla sem koma að félaginu. Það er mikil tilhlökkun í okkar herbúðum að mæta City,“ sagði knattspyrnustjórinn.

Wigan og Manchester City léku til úrslita í ensku bikarkeppninni á Wembley árið 2013 þar sem Wigan vann afar óvæntan sigur og vann þar með sinn fyrsta titil í sögu félagsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert